
Á morgun er komið að stóru stundinni þegar Víkingur og KA eigast við í úrslitaleik Mjólkurbikars karla á Laugardalsvelli. Víkingar hafa verið bikarmeistarar í meira en 1400 daga en KA ætlar sér að taka titilinn af þeim.
Víkingar urðu bikarmeistarar 2019 og hafa haldið bikarnum síðan þá. Þeir eru búnir að vera besta lið landsins í sumar en þeir eru svo gott sem búnir að vinna Bestu deildina. Þeir stefna á það núna að vinna bikarinn líka.
Það verður fróðlegt að sjá hvernig Víkingar stilla upp á morgun. Þórður Ingason hefur staðið vaktina í markinu í leikjum liðsins í Mjólkurbikarnum og við spáum því að hann verði í rammanum á morgun.
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var með Matthías Vilhjálmsson í vinstri bakverði gegn Breiðabliki á dögunum en hann sagði í viðtali í gær: „Ég get sagt þér það að Matti Villa mun spila í mjög óvanalegri stöðu en ég ætla ekki að segja þér hvaða staða það er."
Við spáum því að Matti muni spila hægri bakvörð, ekki vinstri bakvörð. Davíð Örn Atlason verði þá vinstra megin í þessum leik.

KA er að koma inn í þann leik eftir að hafa lent í miklum vonbrigðum af missa af efri hlutanum í Bestu deildinni. Þetta er fyrsti bikarúrslitaleikur KA síðan 2004 og það er mikil tilhlökkun á Akureyri að fylgjast með liðinu í þessum leik.
Alex Freyr Elísson spilar ekki meira með KA á tímabilinu vegna meiðsla og það er högg fyrir liðið að missa hann úr þessum leik. Ingimar Torbjörnsson Stöle verður líklega í hægri bakverði í þessum úrslitaleik.
Svo spáum við því að Elfar Árni Aðalsteinsson muni leiða línuna og verði með góða menn í kringum sig. Ásgeir Sigurgeirsson verður fyrsti maður inn af bekknum ef spáin rætist.

Leikur Víkings og KA fer fram á Laugardalsvelli á morgun og hefst hann klukkan 16:00.
Hér fyrir neðan er hægt að horfa á viðtöl við þjálfarana sem voru tekin í gær.
Athugasemdir