Luis Rubiales, fyrrum forseti spænska fótboltasambandsins, er kominn í nálgunarbann og má hvorki hafa samband né koma innan við 200 metra fjarlægð frá Jennu Hermoso, leikmanni spænska kvennalandsliðsins.
Rubiales kyssti Hermoso á munninn, gegn hennar vilja, eftir sigur spænska landsliðsins á heimsmeistaramótinu í Ástralíu og Nýja-Sjálandi í síðasta mánuði.
Eftir leikinn sagði Hermoso að hún hafi ekki gefið leyfi fyrir kossinum og var kallað eftir því að Rubiales myndi segja af sér.
Hann neitaði að gera það fyrst um sinn og fóru af stað mótmæli þar sem háttsettir menn innan sambandsins kröfðust þess að hann segði af sér.
Rubiales gaf sig á endanum og staðfesti í viðtali við breska sjónvarpsmanninn Piers Morgan að hann væri búinn að segja af sér.
Spænska saksóknaraembættið lagði fram beiðni um að setja Rubiales í nálgunarbann gegn Hermoso og var það samþykkt af dómara í dag en hann má ekki hafa samband við hana og þarf að halda sig í 200 metra fjarlægð frá leikmanninum en hann er til rannsóknar hjá saksóknaraembættinu fyrir kynferðislega áreitni.
Athugasemdir