Risatilboði Chelsea hafnað - Tekur Nuno við West Ham? - Tveir á blaði United - Ungur miðvörður til Arsenal?
   mán 15. september 2025 18:36
Ívan Guðjón Baldursson
Meistaradeild Asíu: Milos sigraði gegn Aroni - Al-Ittihad tapaði
Mynd: Sharjah
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Tveimur fyrstu leikjum dagsins er lokið í Meistaradeild Asíu þar sem lærisveinar Milos Milojevic í liði Al-Sharjah unnu eftir svakalega viðureign gegn Aroni Einari Gunnarssyni og félögum í liði Al-Gharafa.

Al-Sharjah var á heimavelli og lenti tveimur mörkum undir gegn sterkum andstæðingum. Yacine Brahimi og Joselu, fyrrum leikmenn FC Porto og Real Madrid, skoruðu mörkin.

Milos gerði þrjár skiptingar í fyrri hálfleik og eina í leikhlé, þar sem Adel Taarabt og Igor Coronado voru meðal leikmanna sem komu inn af bekknum.

Milos hefur haldið þrumuræðu í hálfleik vegna þess að hlutirnir breyttust eftir leikhléð. Albanski framherjinn Rey Manaj klúðraði vítaspyrnu á 60. mínútu en fylgdi sjálfur eftir með marki og jafnaði Ousmane Camara, sem hafði komið inn af bekknum skömmu fyrir leikhlé, metin á 62. mínútu.

Joselu tók forystuna á ný fyrir gestina með marki úr vítaspyrnu á 73. mínútu og var Aroni þá skipt af velli, en hann var í byrjunarliði Al-Gharafa í dag. Staðan hélst 2-3 fyrir gestina allt þar til á lokakaflanum þegar Abu Baker Khalifa fékk að líta beint rautt spjald á lokamínútunum.

Það var í uppbótartímanum sem lærlingar Milos tóku öll völd á vellinum. Fyrst jafnaði Manaj metin á 91. mínútu áður en Igor Coronado gerði sigurmark á 100. mínútu, eftir stoðsendingu frá Camara. Lokatölur 4-3 eftir magnaða rimmu. Góð byrjun fyrir Al-Sharjah í deildarkeppni Meistaradeildarinnar.

Á sama tíma tapaði stjörnum prýtt lið Al-Ittihad óvænt á útivelli gegn Al-Wahda í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Góður dagur fyrir furstadæmin hingað til.

Steven Bergwijn skoraði eina markið í fyrri hálfleik en liðsfélagi hans, Muhannad Al-Shanqiti, fékk að líta beint rautt spjald. Staðan var því 0-1 í leikhlé en stórveldi Al-Ittihad einum leikmanni færri.

Fabinho lagði markið upp fyrir Bergwijn og voru Moussa Diaby, Houssem Aouar og Danilo Pereira einnig meðal byrjunarliðsmanna.

Dusan Tadic lék allan leikinn í liði heimamanna í Al-Wahda sem snéru stöðunni við einum manni fleiri í seinni hálfleiknum.

Caio Canedo jafnaði metin og hélst staðan jöfn 1-1 allt þar til seint í uppbótartíma, þegar Pimenta Lopes gerði sigurmark á 98. mínútu.

Liðin mættust í fyrstu umferð á Meistaradeildartímabilinu.

Al-Sharjah 4 - 3 Al-Gharafa
0-1 Yacine Brahimi ('33, víti)
0-2 Joselu ('45+4)
0-2 Rey Manaj, misnotað víti ('60)
1-2 Rey Manaj ('60)
2-2 Ousmane Camara ('62)
2-3 Joselu ('73, víti)
3-3 Rey Manaj ('91)
4-3 Igor Coronado ('100)
Rautt spjald: Abu Baker Khalifa, Al-Gharafa ('86)

Al-Wahda 2 - 1 Al-Ittihad
0-1 Steven Bergwijn ('21)
1-1 Caio Canedo ('62)
2-1 Pimenta Peres Lopes ('98)
Rautt spjald: M. Al-Shanqiti, Al-Ittihad ('37)
Athugasemdir
banner
banner