Jonathan Glenn hefur verið rekinn úr starfi þjálfara kvennaliðs ÍBV en þetta staðfestir Þórhildur Ólafsdóttir eiginkona hans og leikmaður liðsins á Facebook í dag. Hún tilkynnir þar einnig að hún sé orðin fyrrverandi leikmaður liðsins.
Þórhildur fer þar ítarlega yfir stöðui mála hjá ÍBV og þann tíma sem Glenn stýrði liðinu en hann tók við fyrir ári síðan og hún segir að hann hafi verið síðasti kosturinn í stöðuna. Hún segir verulega mismunun milli karla- og kvennaliðs ÍBV og hending ef einstaklingar innan knattspyrnuráðs láti sjá sig á leikjum kvennaliðsins.
Grein Þórhildar:
Okkur voru að berast fréttir sem komu heldur betur á óvart en ÍBV íþróttafélag hefur ákveðið að rifta samningnum hans Glenn. Glenn hefur ávallt haft hag klúbbsins í forgangi og passað sig að halda góðri orðræðu á lofti þegar kemur að félaginu. Hinsvegar þá upplifum við okkur svikin og get ég ekki staðið hjá og horft uppá hann vera beittan ranglæti sem þessu. Glenn er einhver sem hefur unnið hörðum höndum og lagt allt sitt í að bæta félagið okkar bæði sem leikmaður og þjálfari.
Síðasta haust var hann ráðinn þjálfari liðsins. Erfitt hafði verið fyrir knattspyrnuráð að finna einhvern í stöðuna en hann var klárlega síðasti kostur knattspyrnuráðs þar sem enginn vitist vilja taka við kvennaliðinu.
Glenn hafði óskað þess að ráðinn yrði aðstoðarþjálfari, eins og eðlilegt er í meistaraflokki, en lítið sem ekkert gerðist. Hann kom inn á borð stjórnar með nafn sem ekki var samþykkt en ástæðan var sú að viðkomandi væri ekki íslendingur. Okkur fannst þessi ástæða enganveginn standa undir sér þar sem karlalið liðsins hefur í ár verið með þrjá erlenda aðstoðarþjálfara yfir eitt tímabil. Ekki nóg með það en þá hefur karlalið félagsins einnig aðgang að styrktarþjálfara og gleymum nú ekki allri aðstoðinni sem þeir þáðu frá einum virtasta knattspyrnuþjálfara landsins, Heimi Hallgrímssyni.
Það var svo loksins samþykkt að markmannsþjálfari klúbbsins yrði ráðinn í stöðu aðstoðarþjálfara en á þeim tímapunkti var Glenn orðinn örvæntingafullur að ekki myndi vera ráðið í stöðuna. Þetta þýddi jú að hann hefði ekki aðstoðarþjálfara heila æfingu og svo gerðist það oft að aðstoðarþjálfarinn var í öðrum verkefnum, til að mynda með karlaliðinu, enda ráðinn í 100% stöðu sem markmannsþjálfari. Þetta var ekki það eina en fram að sumri var enginn sjúkraþjálfari aðgengilegur fyrir liðið, Glenn þurfti einfaldlega að bjarga þessu sjálfur, teypa ökkla og fleira sem er alveg hreint ótrúlegt.
Þegar komið var að sumri þá var loksins ráðinn sjúkraþjálfari sem aðeins hlúði að liðinu í Eyjum. Í útileikjunum voru það hinir og þessir sem sáu um að pússla leikmönnunum saman, oft á tíðum einstaklingar sem höfðu ekki hugmynd um meiðslasögu leikmanna. Yfir tímabilið hefur Glenn því sinnt stöðu aðalþjálfara, aðstoðarþjálfara, sjúkraþjálfar, styrktarþjálfara og ekki nóg með það en þá sá hann alfarið um að finna og "signa" leikmenn fyrir tímabilið. Hann sá einnig um alla leikgreiningu, planaði og setti upp hverja einustu æfingu án nokkurrar aðstoðar.
Upp komu nokkur leiðindamál yfir tímabilið. Glenn ýtti því sem ógnaði hans ímynd og orðspori til hliðar með velferð liðsins í huga. Það sem ekki var mikilvægt, gat beðið og setti hann allan fókusinn á leikmennina og liðið.
Þessi atvik voru samt sem áður mikill stessvaldur og höfðu ekki bara áhrif á þjálfara, heldur klefann allan.
Foreldrar og öðrum fannst þeir eiga rétt á að skipta sér af störfum hans og reyndu jafnvel að þvinga hans ákvörðunartöku með því að ýta á hann sjálfan sem og ráðið. Það gekk svo langt að honum bárust hótanir í facebook samskiptum við eitt foreldrið (já í meistaraflokki). Knattspyrnuráð sýndi lítinn sem engan stuðning eða vilja til að leysa þessi mál og draga línuna þar sem hún á að liggja.
Í íslenskri knattspyrnu er eitt lengsta undirbúningstímabil sem fyrir finnst í knattspyrnuheiminum. Þrátt fyrir það voru búningar liðsins ekki tilbúnir fyrir fyrsta leik, ferðapeysurnar fékk liðið nokkra leiki inn í mótið og ég tala nú ekki um ferðabuxnar sem jú aldrei komu.
Liðið spilaði leik í Lengjubikar síðasta vetur þar sem liðið mætti hvítklæddum Stjörnukonum. Liðið varð að gjöra svo vel að klæðast upphitunnarbolum þar sem hver teypaði sitt númer á bak treyjunnar.
Í þeim leikjum sumarsins þar sem að liðið hefur þurft að klæðast varabúningi félagsins þá hefur fylgt því setti undirbolur og hjólabuxur í sama lit og settið. Við jú auðvitað fengum sett karlaliðsins lánað því af hverju ættu þeir að vera að panta slíkt fyrir kvennalið liðsins, í viðeigandi stærð og sniði. Flest allt í þessu blessaða setti var alltof stórt og þurftu sumar í liðinu einfaldlega að sleppa undirbuxum og bolum í sumum leikjunum.
Liðið mátti oft þakka fyrir að allir kæmust í þær rútur sem pantaðar voru fyrir útileiki kvennaliðsins í ár. Oftast voru þetta litlar og þröngar rútur sem ómögulegt reyndist að halla bakinu aftur eða teygja úr fótleggjunum. Maður hreinlega andaði ofan í hálsmálið á næsta manni og auðvitað var séð til þess að það væri sæti á mann og alls ekki meira en það. Að sitja í slíkri rútu í 2 klukkutíma fyrir leik er enginn frábær undirbúningur, það get ég sagt ykkur.
Daginn fyrir fyrsta leik var okkur tjáð að liðið myndi ekki fá máltíð á leikdegi eins og yfirleitt hefur verið. Okkur fannst þetta heldur skrítið og þá séstaklega sökum þess að umræða hafði verið á lofti um að félagið hefði boðið konum og kærustum karlaliðsins á Einsa Kalda fyrir leik hjá körlunum. Þetta fannst okkur ósanngjarnt og leituðum svara hjá formanni karlaráðsins. Við einfaldri spurningu brást hann heldur illa við og byrjaði að öskra á mig og annan leikmann liðsins. Vanvirðingin var það mikil að hann gekk með ógnandi tilburðum að okkur og hélt áfram að öskra. Á því augnabliki var okkur ljóst að okkar skoðunum væri ekki óskað og gengum við í burtu. Eins og annað þá var þetta ekki rætt meira, þessu sópað undir teppið enda fókusinn á því sem við gátum stjórnað sem var fyrsti leikur tímabilsins.
Glenn tjáði ráðinu í EM pásunni að nú væri færi til sóknar en liðið sat í 4. sæti í deildinni, með fleiri stig úr fyrri umferð en liðið hafði náð í langan tíma. Við áttum góðan möguleika á að blanda okkur í toppbaráttuna og góðan möguleika á evrópusæti enda nóg eftir af móti. Hópurinn var orðinn heldur þunnur og nokkrir leikmenn sem höfðu týnst úr lestinni vegna meiðsla. Glenn tjáði ráðinu að við þyrftum að bæta við leikmönnum í hópinn ef við ætluðum okkur stærri hluti. En hann fékk þau svör að þess þyrfti ekki og að það væri allt í lagi ef að liðið myndi enda í 6. sæti eða jafnvel neðar.
Það er nefnilega svo fyndið hjá þessu félagi að þegar það kemur að knattspyrnu kvenna að þá eru aldrei til peningar en sagan er heldur betur allt önnur hjá karlaliði liðsins sem má orðið skilgreina sem atvinnumannalið.
Ráðið hefur almennt sýnt liðinu lítinn sem engan áhuga yfir tímabilið og má segja það hendingu ef að einstaklingar innan þess hafi sést á leikjum liðsins í sumar. Þrátt fyrir það þá hafa þeir séð sér knúna að gorta sig af því hversu vel þeir hafa gert við kvennaliðið í ár á fundum félagsins.
Það er því ljóst að víða má finna ójafnrétti innan íþrótta og sér í lagi knattspyrnufélaga, meðal annars hjá ÍBV íþróttafélagi. Og það sem verra er, að sá kúltúr hefur fengið að viðgangast þar sem raddir kvenna eru þaggaðar niður og þeirra sem sem stíga upp fyrir okkur stelpurnar. Ég vill meina að við séum komin lengra en þetta.
Hjálpumst að við að breyta leiknum, ef ekki fyrir okkur, þá fyrir dætur okkar og allar knattspyrnukonur framtíðarinnar.
Virðingarfyllst,
Þórhildur Ólafsdóttir,
fyrrum leikmaður ÍBV 🙂