Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
   þri 21. október 2025 11:15
Innkastið
Getur ekki vælt yfir aukaspyrnu á þessum stað
Afturelding og Vestri skildu jöfn að.
Afturelding og Vestri skildu jöfn að.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson
Ágúst Hlynsson skoraði upp úr aukaspyrnunni umdeildu.
Ágúst Hlynsson skoraði upp úr aukaspyrnunni umdeildu.
Mynd: Helgi Þór Gunnarsson

Afturelding gerði 1-1 jafntefli við Vestra um helgina í næst síðustu umferð Bestu-deildarinnar. Afturelding fékk jöfnunarmark á sig undir lok leiks og var liðið vægast sagt ósátt við brot sem var dæmt á þá í aðdraganda marksins. 

Liðið er nú í botnsæti deildarinnar og þurfa Mosfellingar sigur gegn ÍA í lokaumferðinni og að treysta á að viðureign Vestra og KR endi með jafntefli svo þeir haldi sér í Bestu deildinni á næstu leiktíð.


Lestu um leikinn: Afturelding 1 -  1 Vestri

„Það er erfitt að sjá þetta úr sjónvarpinu, en mér finnst þetta ekki galinn dómur,“  sagði Valur Gunnarsson, sérfræðingur Fótbolta.net, í Innkastinu í gær.

Því næst tók Stefán Pálsson til máls: „Ég skil að menn láti dómarann heyra það yfir vafasömu víti. En ekki yfir því að vera reiður yfir aukaspyrnu úti á velli. Líkurnar á því að skora úr aukaspyrnu eru sára, sáralitlar. Þetta er ekki aukaspyrna á þeim stað að þú getir verið að væla yfir þessu.“ 

Fengu færi til að klára leikinn

„Þetta var ekki skemmtilegasti leikur tímabilsins, hann var frekar lokaður og greinilegt að bæði lið voru hrædd. Mér fannst þó Afturelding vera mun líklegra til þess að vinna leikinn og þeir hefðu átt að klára þennan leik,“ sagði Valur og hélt áfram.

„Afturelding fékk fína sénsa til að klára þennan leik, 2-0 og allt í blóma í Mosfellsbæ. En á 94. mínútu eru þeir með innkast við hornfána Vestra og þeir spila honum á milli sín. Það endar með að Hrannar fær boltann og endar á að keyra inn að markinu og skýtur í staðinn fyrir að hlaupa út við hornfána og bíða. 

„Þetta endar með því að Vestri fær markspyrnu, koma boltanum fram og fá aukaspyrnuna umdeildu sem þeir skora svo úr. Það vantaði klókindi. Mér fannst þetta borðleggjandi, það voru 20 sekúndur eftir af leiknum, í staðinn fyrir að halda boltanum út við hornið þá bomba þeir á markið. Ég væri brjálaður,“ sagði æstur Valur Gunnarsson að lokum.


Innkastið - Brottrekstur Blika og yfirlýsingar á Hlíðarenda
Athugasemdir
banner