Roy Keane fyrrum fyrirliði Manchester United segir að miðjumaðurinn ungi Kobbie Mainoo gæti þurft að finna sér annað félag þar sem hann fær alltof lítinn spiltíma undir stjórn Ruben Amorim.
Mainoo fékk aðeins að spila síðustu sex mínúturnar er Man Utd lagði Liverpool að velli á Anfield um helgina, þrátt fyrir mikla þreytu hjá Brassanum þaulreynda Casemiro sem var í byrjunarliðinu.
Casemiro, sem ferðaðist mörgþúsund kílómetra og spilaði tvo leiki í landsleikjahlénu, þurfti að fara af velli á 58. mínútu og þá kom Manuel Ugarte inn af bekknum á meðan Mainoo sat og horfði.
Mainoo er 20 ára gamall og bað um að vera lánaður frá United síðasta sumar, en þeirri beiðni var hafnað. Hann hreif marga áhorfendur með frammistöðu sinni með byrjunarliðinu á síðustu leiktíð þar sem hann fékk að spila yfir 2000 mínútur, en hann hefur aðeins fengið um 200 mínútur í spiltíma á nýju tímabili.
Mainoo vildi vera partur af enska landsliðshópnum sem fer á HM en er búinn að missa sæti sitt í hópnum vegna lítils spiltíma með félagsliði sínu.
„Það er augljóslega vandamál fyrir Mainoo að komast í byrjunarliðið hjá Man Utd. Þjálfarateymið telur ekki að hann sé nægilega fljótur að færa sig á milli svæða á miðjunni en ef þú lítur á hina miðjumennina í hópnum þá eru þeir ekki heldur þeir fljótustu," sagði Keane.
„Hann er ungur leikmaður og eina sem hann getur gert í þessari stöðu er að leggja mikla vinnu á sig á æfingum og nýta tækifærið þegar það gefst. Þetta er ungur og efnilegur miðjumaður en það er ekki nóg til að vera byrjunarliðsmaður hjá United. Þetta snýst mikið um hugarfar og þitt starf sem varamaður er að gera allt í þínu valdi til að sannfæra þjálfarann um að velja þig í liðið. Þú verður að sýna á æfingum að þú átt skilið að vera í byrjunarliðinu.
„Ef vandamálið er að þjálfarinn vill ekki nota Mainoo sama hversu vel hann æfir, þá þarf hann að finna sér nýtt félag í janúar. Við erum að ræða um leikmann með hæfileika sem hreif marga á síðustu leiktíð og komst í enska landsliðið. Hann þarf að finna þann takt aftur.
„Hann er ekki búinn að nýta þau tækifæri sem hann hefur fengið á tímabilinu. Ég get alveg skilið þessa ákvörðun hjá þjálfaranum að velja hann ekki í liðið."
Stórveldi á borð við Chelsea, Tottenham, Napoli, Atlético og Real Madrid voru orðuð við Mainoo nýliðið sumar.
Vinur hans Alejandro Garnacho var seldur til Chelsea og er spurning hvort Mainoo fari fram á sölu eftir áramót.
19.10.2025 10:54
Vill ekki missa Mainoo og Zirkzee - „Það er einhver hávaði“
Athugasemdir