Hjulmand helsta skotmark Man Utd - Fulham vill halda Marco Silva - Spænsku risarnir fylgjast með Guehi
banner
   þri 21. október 2025 10:36
Elvar Geir Magnússon
Ótrúlegt ævintýri í litla fiskiþorpinu endaði með meistaratitli
Fyndnir hattar og fjör í klefanum.
Fyndnir hattar og fjör í klefanum.
Mynd: EPA
Mjällby hefur tryggt sér sænska meistaratitilinn í fyrsta sinn en þetta er eitt mesta afrek Evrópufótboltans í einhvern tíma. Ævintýrið er borið saman við það þegar Leicester vann Englandsmeistaratitilinn 2016.

Heimavöllur Mjällby er í Hällevik, litlu fiskiþorpi við Eystrasaltið þar sem um 1.500 manns búa. Félagið hefur mun minna fjármagn milli handanna en stærstu félögin í Svíþjóð.

2-0 sigur gegn Gautaborg í gær innsiglaði meistaratitil Mjällby þegar þrjár umferðir eru eftir af sænsku úrvalsdeildinni.

„Þetta er eitthvað sem ég hélt að ég myndi aldrei upplifa á minni lífstíð. Ég er svo ótrúlega stoltur af því að vera hluti af þessu liði. Þetta sýnir manni hversu langt liðsheildin getur komið manni," segir sóknarmaðurinn Jacob Bergström.

Fyrir aðeins níu árum var Mjällby einum leik frá því að falla niður í sænsku fjórðu deildina. Liðið náði að halda sér og komst upp um tvær deildir á tveimur árum 2018 og 2019. Magnus Emeus, kaupsýslumaður sem er frá bænum, varð stjórnarformaður 2015 og setti nýja stefnu hjá félaginu.

Tímabilið hjá Mjällby hefur verið algjörlega magnað, liðið hefur aðeins tapað einum leik og er með 66 stig. Þjálfari liðsins, Anders Torstensson, hefur starfað sem skólastjóri þegar hann er ekki að starfa við fótboltann.

Mjällby hefur aðeins fengið 17 mörk á sig í 27 leikjum. Varnarmaðurinn Axel Noren er meðal bestu leikmanna liðsins en hann var nýlega valinn í sænska landsliðið í fyrsta sinn. Með honum í vörninni er Abdullah Iqbal sem er landsliðsfyrirliði Pakistan.
Athugasemdir
banner
banner