Lewandowski, Anderson og Endrick orðaðir við Man Utd - Semenyo til Liverpool í janúar? - Barcelona skuldar - Toney til Tottenham?
   mið 22. október 2025 18:04
Brynjar Ingi Erluson
Evrópukeppni unglingaliða: KA tapaði fyrir grísku meisturunum
KA tapaði fyrri leiknum sem fór fram í Boganum á Akureyri
KA tapaði fyrri leiknum sem fór fram í Boganum á Akureyri
Mynd: Aðsend
KA U19 0 - 2 PAOK U19
0-1 Konstantinos Toursounidis ('7 )
1-1 Halldór Ragúel Guðbjartsson ('52 , sjálfsmark)
Rautt spjald: Dimitrios Bataoulas, PAOK U19 ('89) Lestu um leikinn

KA tapaði fyrir gríska liðinu PAOK, 2-0, í fyrri leik liðanna í 2. umferð Evrópukeppni unglingaliða í Boganum í dag.

Leikurinn átti upphaflega að fara fram á Greifavelli klukkan 14:00, en var frestað til 17:00 og síðan færður inn í Bogann vegna mikillar snjókomu á Akureyri.

Gestirnir frá Grikklandi voru betri aðilinn til að byrja með og var það Konstantinos Toursounidis sem kom þeim á bragðið á 7. mínútu er hann komst auðveldlega í gegnum vörn KA og skoraði.

PAOK var með ágætis tök á leiknum en undir lok hálfleiksins fóru KA-menn að sækja meira á gestina. Þó vantaði aðeins upp á herslumuninn.

Staðan í hálfleik 1-0, en snemma í þeim síðari komust Grikkirnir í 2-0 er markaskorarinn Toursounidis átti skot sem Halldór Ragúel Guðbjartsson reyndi að bjarga en varð fyrir því óláni að koma honum í eigið net.

Valdimar Logi Sævarsson átti skot rétt framhjá markinu á 66. mínútu og þá vildu heimamenn fá vítaspyrnu þegar fór að styttast í annan endann á leiknum en fengu ekki.

Dimitrios Bataoulas, leikmaður PAOK, sá sitt annað gula spjald og þar með rautt undir lok leiks og fengu KA-menn aukaspyrnu á hættulegum stað, en náðu ekki að nýta.

Mark frá KA hefði opnað einvígið upp á gátt en liðinu tókst ekki að minnka muninn og fer því 2-0 undir til Grikklands í seinni leikinn, en hann er spilaður 5. nóvember í Thessaloniki.

Sigurvegarinn fer áfram í 3. umferð sem er síðasta umferðin fyrir úrslitakeppnina sjálfa.
Athugasemdir
banner