mið 22.okt 2025 16:00 Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð |
|

Fimm bestu miðverðir Bestu: Stórir prófílar og Íslandsmeistarar
Fótbolti.net hefur sett saman nokkrar mismunandi dómnefndir til að velja fimm bestu leikmennina í mismunandi stöðum í Bestu deildinni. Núna er komið að því að útnefna fimm bestu miðverðina samkvæmt álitsgjöfum.
Einstaklingarnir í dómnefndunum eru vel valdir einstaklingar sem eru annað hvort að spila eða hafa spilað þá stöðu sem þeir voru beðnir um að setja saman lista úr. Þeir voru einfaldlega beðnir um að velja þá sem þeim finnst bestir heilt yfir - ekkert endilega bara á þessu tímabili þó það skipti auðvitað máli í valinu.
Þetta er þriðja árið í röð sem við tökum saman þessa lista en í ár verða þeir fleiri þar sem við bætum við tveimur stöðum - bakverðir og kantmenn en síðustu tvö ár voru leikmenn í þessum stöðum innifaldir í lista fyrir varnarmenn og sóknarmenn.
Caulker á mikinn fjölda leikja að baki í ensku úrvalsdeildinni.
Mynd/Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sjá einnig:
5. Eiður Aron Sigurbjörnsson (Vestri)
Eiður Aron hefur verið einn allra besti varnarmaður Bestu deildarinnar í ár og sérstaklega þá framan af þegar Vestri var á miklu skriði. Hann hjálpaði Vestra að vinna magnaðan sigur í bikarúrslitaleiknum gegn Val fyrir nokkrum vikum síðan en hann var frábær í þeim leik.
„Eiður er náttúrulega einn af bestu leikmönnum, og ég ætla að leyfa mér að segja það, landsins í augnablikinu og er á toppstað í sínu líkamlega atgervi," sagði Davíð Smári Lamude, þáverandi þjálfari Vestra, við Fótbolta.net í júní. Eiður Aron hefur átt góð ár með Vestra og fundið sig aftur. Hann er núna að flytja suður og líklega mörg félög sem munu heyra í honum.
4. Steven Caulker (Stjarnan)
Það voru risafréttir í sumar þegar Steven Caulker samdi við Stjörnuna og gerðist spilandi aðstoðarþjálfari í Garðabænum. Það gerist svo sannarlega ekki á hverjum degi að leikmaður sem er með ferilskrá eins og Caulker komi til Íslands.
???????? Steven Caulker arrives in Iceland!
— English Players Abroad (@EnglishAbroad1) July 8, 2025
A transfer I missed last week was the 33-year-old signing for Icelandic top-flight side Stjarnan.
The defender has joined the club as a player/coach.
Last season he made 33 appearances for Turkish second-tier side Ankara Keçiörengücü. pic.twitter.com/P70qLYoCrq
Caulker á að baki 123 leiki í ensku úrvalsdeildinni á sínum ferli en hann spilaði með bæði Tottenham og Liverpool. Hann spilaði þá einn landsleik með enska landsliðinu. Hann hefur komið afar sterkur inn í Stjörnuliðið og hjálpað þeim í baráttunni um Evrópusæti. Hann ætlar sér langt í þjálfun en er í dag enn býsna góður miðvörður fyrir íslenska boltann.
3. Hólmar Örn Eyjólfsson (Valur)
Í þriðja sæti listans er Hólmar Örn sem er líklega að eiga sitt besta tímabil eftir að hann kom aftur heim til Íslands. Hólmar sneri aftur heim fyrir tímabilið 2022 eftir mörg góð ár í atvinnumennsku þar sem hann var meðal annars á mála hjá West Ham, Bochum og Rosenborg.
Hann er leiðtogi í Valsliðinu sem var lengi vel á toppnum í Bestu deildinni og komst jafnframt í bikarúrslit í sumar. „Jú, ég get alveg verið sammála því að þetta er til þessa besta tímabilið mitt hjá Val," sagði Hólmar í samtali við Fótbolta.net en hann á eitt ár eftir af samningi sínum á Hlíðarenda. Þetta er í fyrsta sinn þar sem hann kemst inn á þennan lista sem er athyglisvert.
2. Oliver Ekroth (Víkingur R.)
Var á toppi listans í fyrra en fer núna niður í öðru sæti. Það er líklega ekkert sem hann gerði þar sem hann átti virkilega gott tímabil með Íslandsmeisturum Víkinga. Ekroth átti erfitt uppdráttar á sinni fyrstu leiktíð á Íslandi en síðustu þrjú tímabil hefur hann að mestu leyti verið stórkostlegur.
„Frábær alhliða varnarmaður. Reynslumikill og traustur með afburða leikskilning. Sterkur í loftinu og á fótunum, góður á boltanum og alvöru skrokkur," sagði einn álitsgjafinn um Ekroth í fyrra en það er svo sannarlega vel hægt að taka undir þetta.
1. Gunnar Vatnhamar (Víkingur R.)
Á toppnum að þessu sinni er félagi Ekroth í vörninni hjá Víkingum, Færeyingurinn geðugi. Hann og Ekroth mynda besta miðvarðapar deildarinnar og mögulega eitt besta miðvarðapar í sögu íslenska boltans.
Vatnhamar hefur breytt Víkingi til hins betra frá því hann kom til félagsins fyrir tímabilið 2023. Hann var óskrifað blað en sýndi það fljótt hversu frábær hann er. Hann getur leyst aðrar stöður á vellinum líka en er bestur þegar hann spilar við hlið Ekroth í vörninni.
Hann var svolítið mikið meiddur á tímabilinu sem er núna að klárast en sigurhlutfall Víkinga með hann í liðinu er talsvert hærra en þegar hann er ekki. „Gunnar er draumur hvers þjálfara. Hann er auðvitað einstök mannvera, það er ekki annað hægt en að elska hann í ræmur. Hann er alltaf tilbúinn að fórna sér fyrir liðið, tilbúinn að fórna sinni heilsu fyrir liðið. Í grunninn er hann virkilega góður varnarmaður," sagði Sölvi Geir Ottesen, þjálfari Víkinga, í útvarpsþættinum Fótbolti.net á dögunum.
Athugasemdir