
Arna Eiríksdóttir gekk í upphafi septembermánaðar til liðs við norska liðið Valerenga eftir að hafa heillað mikið í liði FH um sumarið. Arna er í landsliðshópnum sem mætir Norður Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar. Fótbolti.net ræddi við Örnu um lífið í Noregi og leikina tvo gegn Norður Írum á landsliðshóteli Íslands í Belfast fyrr í kvöld.
„Ég held að bæði ég og allur hópurinn sé spennt fyrir komandi verkefni, leikirnir leggjast vel í okkur. Það er alltaf gaman að hitta stelpurnar, það er góður andi í hópnum.“
„Það er mikið í húfi, ótrúlega mikilvægt fyrir okkur að halda okkur í þessari A-deild í Þjóðadeildinni. Þannig að þetta eru tveir leikir sem við verðum að vinna.“
Arna fór frá FH til Valerenga
„Það er búið að vera mjög skemmtilegt síðan að ég kom, auðvelt að komast inn í hlutina, mikið að aðlagast og mikið af nýjum hlutum en mjög skemmtilegt og góður hópur sem tók á móti mér þar. Maður er náttúrulega að lifa drauminn, þannig að þetta er frábært.“
Landsliðskonan Sædís Rún Heiðarsdóttir er liðsfélagi Örnu í Valerenga. „Það hjálpar alveg helling, frábært að hafa hana og að hafa annan Íslending með mér,“ segir Arna.
Viðtalið við Örnu má sjá í heild sinni hér að ofan en þar er leikurinn við Norður Íra ræddur nánar og gott gengi FH frá því að hún yfirgaf félagið.