
Vigdís Lilja Kristjánsdóttir er í landsliðshóp Íslands sem mætir Norður Írlandi í umspili Þjóðadeildarinnar. Vigdís er leikmaður Anderlecht í Belgíu og er hún í fyrsta sinn í landsliðshópnum. Fótbolti.net ræddi við Vigdísi á landsliðshóteli Íslands í Belfast.
„Mér líður ótrúlega vel og er ótrúlega stolt að fá að koma hingað og vera með hópnum.“
Er þetta búinn að vera langþráður draumur?
„Já, auðvitað. Frá því að ég byrjaði í fótbolta var þetta alltaf markmiðið.“
Ánægjuleg tíðindi þegar Steini tilkynnti þér að þú værir í hópnum?
„Ég fékk að vita það, áður en hann hringdi í mig en ég var að bíða eftir símtalinu eftir það. Það var auðvitað mjög góð tilfinning og er ógeðslega stolt að fá að vera hérna.“
Vigdís gekk til liðs við Anderlecht í upphafi árs eftir að hafa verið lykilmaður í liði Breiðabliks þar áður.
„Fyrstu mánuðirnir voru frekar erfiðir, kem inn í mitt tímabil. En núna tók ég undirbúningstímabil með þeim og nú gengur allt miklu betur. Búin að koma mér vel fyrir.“
Belgarnir skemmtilegir?
„Þær eru öðruvísi en mjög skemmtilegar,“ sagði Vigdís létt að lokum en viðtalið má sjá í heild sinni í spilaranum hér að ofan.