Viktor Bjarki Daðason lék í gær sinn fyrsta Meistaradeildarleik þegar hann kom inn á í lið FCK gegn Dortmund á Parken í Kaupmannahöfn. Viktor Bjarki gerði sér lítið fyrir og skoraði gott skallamark undir lok leiks og minnkaði muninn í 2-4 fyrir Danina.
Viktor Bjarki er ekki nema 17 ára, hann er uppalinn Framari sem gekk í raðir danska liðsins sumarið 2024. Hann þreytti frumraun sína í keppnisleik með FCK síðasta föstudag og lagði upp mark í þeim leik.
Fótbolti.net ræddi við formann fótboltadeildar Fram, Guðmund Torfason, í dag.
Viktor Bjarki er ekki nema 17 ára, hann er uppalinn Framari sem gekk í raðir danska liðsins sumarið 2024. Hann þreytti frumraun sína í keppnisleik með FCK síðasta föstudag og lagði upp mark í þeim leik.
Fótbolti.net ræddi við formann fótboltadeildar Fram, Guðmund Torfason, í dag.
„Þetta er rós í hnappagatið fyrir unglingastarfið hjá okkur, við sjáum að Fram er að gera eitthvað rétt. Yngri flokka starfið er grunnurinn á öllu hjá félögunum. Það er kannski það sem við efla enn frekar í Úlfarsárdal. Ég man í minni tíð þegar ég var að koma upp yngri flokkana, fyrir nokkrum öldum síðan, þá voru alltaf góðir yngri flokkar. Það er aðalsmerki þess að von sé á einhverri velgengni," segir Guðmundur.
„Þetta eru stórar fréttir, hann er 17 bara 17 ára! Ég man í fyrra þegar við vorum að gefa honum tækifæri, hann var 15 ára þegar hann spilaði fyrst. Það er mikið hrós á þjálfarana í yngri flokkunum sem hafa stutt við hann. Það var gert vel með hann og við erum stoltir af Viktori Bjarki. Við vonum svo sannarlega að hann haldi áfram að taka þessi skref. Hann er 17 ára og kominn inn í aðallið FCK. Það eru stórar fréttir fyrir íslenskan fótbolta."
„Hann er með mjög sterkan karakter og fjölskyldan hefur stutt vel á bakvið hann, það er ekki auðvelt fyrir unga drengi að fara erlendis og stuðningurinn skiptir miklu máli."
Hvernig er fyrir Framara að sjá Viktor skora í Meistaradeildinni?
„Ég horfði á leikinn í gærkvöldi. Það var magnað að sjá að hann átti í fullu tré við alla þessa leikmenn. Þegar hann skorar þetta mark með skallanum er hann að sýna líkamsstyrk á móti þrælreyndum leikmönnum. Hann er að standa sig frábærlega."
„Ég átti alveg von á því. Hann sýndi í leikjunum okkar í fyrra, byrjaði einhverja leiki og kom inn á, áður en hann fór út á miðju tímabili. Ég get sagt það að ef við hefðum haft Viktor í ár þá hefðum við verið eitthvað ofar í töflunni."
„Það góða við hann er að það eru mörk í honum. Alltaf sem ég horfi á sóknarmenn, sem gamall refur í þessu, þá eru staðsetningar og ákveðnir möguleikar sem leikmenn sjá. Þú kennir það ekki, hann hefur það í sér. Það er hluti leiksins sem skilur að miðlungssóknarmennina og svo þá sem hafa þetta í sér að þefa upp möguleikann á því að geta skorað mark," segir Guðmundur sem lék á sínum tíma 26 landsleiki, skoraði í þeim fjögur mörk og lék sem atvinnumaður í Belgíu, Austurríki, Skotlandi og á Englandi.
Viktor Bjarki á að baki 23 leiki fyrir yngri landsliðin og skorað í þeim fimm mörk. Sjö leiki á hann fyrir U19 landsliðið. Guðmundur var spurður hvort honum fyndist skrítið að Viktor væri ekki búinn að spila með U21 landsliðinu, en væri búinn að spila í dönsku úrvalsdeildinni og Meistaradeildinni.
„Ég vil ekki fara út í pólitíkina sem er á bakvið landsliðsval. Það er bara ákvörðun þjálfarans. Fyrir leikmenn, alveg sama hverjir eru valdir, þá finnst mér það vera þannig að ef leikmaðurinn heldur sínu striki og bætir sig, þá mun hann á endanum enda á þeim stað sem hann á skilið. Það er reyndin í þessu, maður hefur sé fullt af alls konar strákum fara í gegnum unglingalandsliðin en ekki komist upp í A-liðið. Það er aldrei samasemmerki við það að vera góður unglingalandsliðsmaður og að komast svo í sjálft landsliðið. Það er svo mikið sem er eftir þegar þú ert ungur leikmaður," segir Guðmundur.
Athugasemdir



