Sparkspekingurinn Jamie O'Hara segir Mikel Arteta og Arsenal hafa drepið ensku úrvalsdeildina með leikaðferð sinni og að nú séu önnur lið farin að herma á eftir þeim.
Arsenal hefur reitt sig mikið á föst leikatriði síðustu ár og hefur það verið vaninn hjá liðinu að skora mörg mörk eftir slík.
Vörn Arsenal hefur þá verið ein sú besta í deildinni, en O'Hara segist orðinn þreyttur á því að toppliðin á Englandi séu að nota aðferðir sem henta helst minni liðunum.
O'Hara, sem lék með unglingaliði Arsenal og síðar aðalliði Tottenham, gagnrýndi bæði félög fyrir þennan leikstíl og sérstaklega Arsenal sem hann segir vera upphafið af því að enska úrvalsdeildin sé orðin leiðinleg.
„Þetta er að drepa leikinn, sérstaklega ensku úrvalsdeildina sem er jú varan. Ég hata þetta. Fótboltinn sem maður er að horfa á minnir mann á utandeildina. Tottenham um helgina, einhverskonar svæðisfótbolti. Skalla boltann burt, Danso tekur fram handklæðið og byrjar að kasta. Þetta er svo einhæft.“
„Ég skil að slakari liðin eins og Brentford reyna að skapa færi með löngum innköstum og skapa smá usla, en svo sér maður toppliðin gera þetta. Ég trúi ekki mínum eigin augum. Þetta er allt Arsenal að kenna. Þeir byrjuðu á þessu með löngu innköstunum og föstu leikatriðunum. Þeir eru búnir að drepa ensku úrvalsdeildina ef við tölum um skemmtilegan og fljótandi fótbolta.“
„Hvað færðu úr löngu innkasti? Þú fyllir teiginn, kastar boltanum þangað og mögulega nærðu að fleyta boltanum áfram og skapa færi, en það er svo leiðinlegt að horfa á þetta og svo utandeildarlegt. Þetta er enska úrvalsdeildin sem við erum að tala um hérna, sem á að vera deild þeirra bestu.“
„Ég get skilið að þetta sé notað af og til eða á síðustu fimm mínútum leiksins þar sem þú vilt koma boltanum inn í teiginn og skapa smá usla, en við erum alltaf að horfa á löngu innköstin þar sem leikurinn stöðvast, fer af stað, stöðvast aftur og síðan aftur af stsað. Hvað varð um að taka boltann niður, færa hann fljótt, koma með fyrirgjöf inn í teiginn eða hlaupa upp að endalínu? Thomas Frank hefur verið að gera þetta hjá Tottenham og ég er alls ekki hrifinn af því. Ég er enginn aðdáandi og mér finnst þetta vera að drepa úrvalsdeildina,“ sagði O'Hara.
Arsenal hefur skorað 43 mörk eftir föst leikatriði frá 2023-2024, flest allra liða, en Everton kemur næst á eftir með 33 mörk. Á þessu tímabili hefur Arsenal skorað átta deildarmörk eftir fast leikatriði.
Athugasemdir