Rashford gæti farið frá Man Utd í janúar - Davies hefur áhuga á að fara til Liverpool - Fer Kobel til Chelsea?
   þri 15. október 2024 14:10
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Börkur hættir sem formaður Vals (Staðfest)
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Ómar Vilhelmsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Börkur Edvardsson er að hætta sem formaður knattspyrnudeildar Vals en hann greinir frá tíðindunum í opinni Facebook færslu í dag.

„Ég hef ákveðið að láta staðar numið eftir 21 ár í sjálfboðaliðastarfi og mun ekki bjóða mig fram til formanns né til stjórnarsetu í knattspyrnudeild Vals á komandi haustfundi félagsins sem haldinn verður 21. október," skrifar Börkur.

Börkur hefur verið formaður knattspyrnudeildar frá árinu 2003. Í formannstíð Barkar varð Valur 14 sinnum orðið Íslandsmeistari í fótbolta og tíu sinnum bikarmeistari. Hann segir í færslu sinni að það sé mikilvægt að Valur ráði yfirmann knattspyrnumála og framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar.

Færslan í heild sinni
Takk fyrir mig:
Ég hef ákveðið að láta staðar numið eftir 21 ár í sjálfboðaliðastarfi og mun ekki bjóða mig fram til formanns né til stjórnarsetu í knattspyrnudeild Vals á komandi haustfundi félagsins sem haldinn verður 21. október.

Árangur sem ekkert annað félag státar af:
Á þeim árum sem ég hef verið formaður og stjórnarmaður hafa unnist yfir 70 titlar þar af 24 stórir titlar, 14 Íslandsmeistaratitlar og 10 bikarameistaratitlar.

Ekki óraði mig fyrir því þegar ég tók sæti í stjórn knattspyrnudeildar Vals 2003 að ég ætti eftir að endast í 21 ár sem formaður og stjórnarmaður knattspyrnudeildar, sem stjórnarmaður aðalstjórnar og varaformaður félagsins sem ég gengdi í eitt tímabil.

Stoltur og þakklátur:
Ég er stoltur og þakklátur að hafa stýrt knattspyrnudeild Vals á sigursælasta tímabili í sögu félagsins og það með mínum bestu vinum og fjölskyldu.

Ég var alinn upp á Hlíðarenda:
Sex ára gamall tók ég strætó með félögum mínum nánast á hverjum degi úr Breiðholtinu niður á Hlemm þaðan sem við löbbuðum á æfingar í Val. Á þessum tíma var algengt að iðkendur kæmu í Val úr öðrum hverfum borgarinnar. Hlíðarendi varð fyrir okkur eins og annað heimili við urðum fljótt miklir Valsmenn og vorum hluti af sigursælum ‘66 árgangi félagsins. Á þessum tíma var félagið sigursælt og enginn skortur á hetjum til að líta upp til.

Ekki Valur sem ég var alinn upp við:
Árið 2003 og árin þar á undan hafði umhverfið verið erfitt hjá Val. Aðstöðuleysi, innviðar fúnir,fjárhagsleg vandræði og hnignun blasti við. Meistaraflokkur karla flakkaði á milli deilda og áttum við til að mynda ekki til bolta á æfingar, vesti eða keppnisbúninga. Þetta var ekki Valur sem ég var alinn upp við.

Upprisan:
Allt til ársins 2003 fylgdist ég með Val úr fjarlægð en það ár vorum við bræður beðnir um að taka að okkur að sjá um hálfleikskaffið á heimaleikjum. Við ákváðum að slá til. Fljótlega var öll fjölskylda okkar bræðra mætt á hvern einasta heimaleik til að skera niður snúða og laga kaffi.

Seinna um sumarið 2003 var ég fenginn í stjórn knattspyrnudeildar. Meistaraflokkur kvenna varð bikarmeistari það ár en meistaraflokkur karla lenti í neðsta sæti Landsbankadeildarinnar og féll með 20 stig. Lokaleikur tímabilsins var gegn Fylki og tapaðist 6-2. Eftir þann leik var ég beðinn um að taka við sem formaður deildarinnar.

Fyrsta tímabil mitt sem formaður var 2004. Fyrir tímabilið einsettum við í stjórn deildarinnar okkur að koma meistaraflokkum okkar í fremstu röð, margfölduðum tekjurnar með sjálfsaflafé, náðum í gæðaleikmenn og ástandið gjörbreyttist til batnaðar.

Velgengnin:
Um haustið varð meistaraflokkur kvenna Íslandsmeistarar undir stjórn Elísabetar Gunnarsdóttur og meistaraflokkur karla vann 1. deild með nokkrum yfirburðum undir stjórn Njáls Eiðssonar.
Fyrir tímabilið 2005 var Willum Þór Þórsson ráðinn þjálfari meistaraflokks karla og á hans fyrsta tímabili varð liðið bikarmeistari og endaði í 2.sæti í deildinni á eftir FH. Meistaraflokkur kvenna endaði einnig í 2.sæti á eftir Breiðablik

Tímabilið 2006 var einnig gjöfult því meistaraflokkur kvenna urðu Íslandsmeistarar og bikarmeistarar og meistaraflokkur karla endaði í 3ja sæti..

Þáttaskil urðu síðan hjá félaginu 2007 þegar ráðist var í uppbyggingu á öllu Hlíðarendasvæðinu. Þetta sama ár urðu bæði meistaraflokkar karla og kvenna Íslandsmeistarar, karlamegin í fyrsta sinn í 20 ár.

Meistaraflokkur karla:
Íslandsmeistarar 2007, 2017, 2018, 2020
Bikarmeistarar 2005, 2015, 2016

Meistaraflokkur kvenna:
Íslandsmeistarar 2004, 2006, 2007, 2008, 2009, 2010, 2019, 2021, 2022, 2023
Bikarmeistarar 2003, 2006, 2009, 2010, 2011, 2022, 2024

Að lokum:
Það verður seint talið eigingjarnt að standa í stafni í sjálfboðaliðastarfi í 21 ár en á þessum tíma hefur gríðarlega margt breyst. Aðstaða og umgjörð hefur einnig tekið stórfelldum breytingum og við erum stolt af því að hafa verið leiðandi í umgjörð í kringum meistaraflokkana og fyrir áhorfendur. Við höfum markað sporin í þeim málum sem önnur lið ýmist reyna eða dreymir um að feta í.

Þrátt fyrir að mikil velgengni hafi einkennt þessi ár þá hefur þetta reynt á mann sjálfan og fólkið í kringum mann. Það fer gríðarlegur tími og mikil orka í að halda starfi sem þessu gangandi. Eftir allan þennan tíma met ég það svo að það sé ekki lengur hægt að leggja slíka vinnu á sjálfboðaliða.

Það er mikilvægt að Valur ráði yfirmann knattspyrnumála og framkvæmdastjóra knattspyrnudeildar en tillögur um slíkt hafa verið lagðar fram.

Þetta er Valur fyrir mér:
Ég hefði aldrei getað setið þetta lengi í stjórnum Vals nema með ómetanlegum stuðningi frá eiginkonu minni Berghildi Erlu og strákunum okkar tveimur, Sigurbirni og Edvardi Degi sem hafa verið „all in“ frá upphafi. Eins hef ég verið svo lánsamur að pabbi, Edvard Skúlason, elsti starfandi sjálfboðaliði landsins og bræður mínir tveir Skúli og Ótthar ásamt sínum fjölskyldum hafa verið á Hlíðarenda nánast daglega frá árinu 2003. Stundirnar með þeim og öllum vinunum og félögunum á Hlíðarenda eru minningar sem gerðu þetta allt þess virði.
Það er Valur fyrir mér.

Vinir, hetjur og samferðarfólk:
Það eru nokkrir aðilar, vinir, hetjur og samferðafólk sem eiga gríðarlega mikið hrós skilið fyrir sinn dugnað, vináttu, fórnfýsi, trú, hugsjón og óeigingjarnt starf fyrir Val. Án þeirra hefði vegferðin verið öðruvísi.

Má þar helst nefna vini mína Jón Gretar Jónsson, Jón Höskuldsson, Didda, Braga G. Bragason, Davor Purusic og Þorstein Guðbjörnsson.

Jafnframt þakka ég öllum þeim leikmönnum og þjálfurum sem ég hef unnið með öll þessi ár.

Sérstakar þakkir fá Óli Jó, Pétur Pétursson, Sigurbjörn Hreiðarsson, Elísabet Gunnarsdóttir, Willum Þór Þórsson og Freyr Alexandersson sem eiga risastóran þátt í uppbyggingu fótboltans en þau stýrðu meistaraflokkum karla og kvenna með stórkostlegum árangri. Þau eru fyrir löngu orðnir hetjur og goðsagnir á Hlíðarenda.

Það sama má segja um Heimi Guðjóns sem skilaði Íslandsmeistaratitli fyrir félagið og á sinn þátt í velgengni Vals.
Ekki síður vil ég þakka formönnum og stjórnarfólki allra deilda félagsins, stjórn Valsmanna, Hlíðarenda SES og sérstaklega Herði Gunnarssyni sem hefur setið í öllum stjórnum Vals sem er einstakt afrek. Valur er ríkt félag að eiga slíkan mann að.

Eins vil ég nota tækifærið og þakka framkvæmdarstjórum Vals og starfsfólki fyrir samstarfið og samveruna undanfarin ár.
Síðast og en síst þakka ég þeim Grími Sæmundsen og Helga Magnússyni fyrir afar farsælt og gjöfult samstarf en þeir eiga mikið hrós skilið fyrir sín störf fyrir Val.
Án þeirra væri félagið ekki á þeim stað sem það er í dag.

Ekki má gleyma fjölmiðlafólki og podcast stjórnendum sem ég hef kynnst og hef ég farið í þó nokkur viðtölin á öllum þessum árum. Ykkur vil ég þakka fyrir samstarfið, áhugann á íslenskum fótbolta og góða umfjöllum og hvet ég ykkur áfram til góðra verka.
Ég óska nýrri stjórn og formanni knattspyrnudeildar Vals til hamingju með væntanlegt kjör og veit ég að þau munu leggja sig fram við að tryggja að gott og farsælt starf verði áfram unnið á Hlíðarenda.

Takk fyrir mig og áfram sjálfboðaliðar landsins, áfram til góðra verka.
Athugasemdir
banner
banner
banner