Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 16. mars 2020 22:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Félög í Championship tilbúin í málaferli
Marcelo Bielsa, þjálfari Leeds United sem er á toppi Championship.
Marcelo Bielsa, þjálfari Leeds United sem er á toppi Championship.
Mynd: Getty Images
Þau félög sem eru í efstu sex sætum Championship-deildarinnar á Englandi eru tilbúin í málaferli gegn kollegum sínum úr ensku úrvalsdeildinni ef þessu tímabili verður hætt og látið sem svo að það hafi ekki átt sér stað.

The Times greinir frá því að Leeds United, West Bromwich Albion, Fulham, Brentford, Nottingham Forest and Preston North End, félögin í sex efstu sætum Championship hafi haldið neyðarfund til að ræða stöðuna. Annar fundur með öllum 24 félögum Championship verður haldinn á morgun.

Félögin eru sögð vægast sagt ósátt við þær yfirlýsingar sem hafa komið frá ákveðnum úrvalsdeildarfélögum um að hætta tímabilinu út af kórónuveirunni.

Karren Brady, varaformaður West Ham, skrifaði pistil í The Sun um liðna helgi þar sem hún sagði: „Það eina sanngjarna í stöðunni er að hætta við tímabilið." Þess má geta að West Ham er í fallbaráttu.

Keppni í öllum deildum Englands hefur verið frestað þangað til í apríl út af veirunni.

Félögin í efstu sex sætum Championship vilja að tímabilið verði klárað, jafnvel þó að það þýði að byrjun næsta tímabils verði seinkað. Félögin vilja líka að öll þrjú sætin upp í úrvalsdeild verði vernduð, en sú hugmynd hefur komið upp að setja tvö efstu liðin, Leeds og West Brom, upp og vera með 22 liða úrvalsdeild á næsta tímabil.

Búist er við því að Evrópumótinu, sem átti að fara fram í sumar, verði frestað á morgun. Það ætti að gefa deildarkeppnum sveigjanleika til að klárast þegar líður á sumarið.
Athugasemdir
banner
banner