Guehi vill fara til Liverpool - Real Madrid ætlar að fá Saliba - Kolo Muani til Newcastle?
   sun 16. mars 2025 15:43
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal minnkaði forystu Liverpool niður í tólf stig - Fulham kláraði Tottenham í lokin
Mikel Merino skoraði sigurmarkið
Mikel Merino skoraði sigurmarkið
Mynd: EPA
Tottenham tapaði fyrir Fulham
Tottenham tapaði fyrir Fulham
Mynd: EPA
Andreas Pereira lagði upp fyrra mark Fulham
Andreas Pereira lagði upp fyrra mark Fulham
Mynd: EPA
Arsenal hafði sigur gegn Chelsea, 1-0, í Lundúnaslag í 29. umferð ensku úrvalsdeildarinnar á Emirates-leikvanginum í dag og tókst liðinu um leið að minnka forystu Liverpool niður í tólf stig í titilbaráttunni.

Arsenal var sterkara liðið til að byrja með og var það nálægt að skora á 13. mínútu. Jurrien Timber hafði betur í baráttunni við Marc Cucurella í teignum, kom boltanum inn á teig. Wesley Fofana komst fyrir og eftir darraðardans varði Robert Sanchez vel í markinu.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu í aðdragandanum þar sem Cucurella virtist handleika boltann. VAR taldi að ekkert saknæmt hafi átt sér stað og hélt leikurinn áfram.

Declan Rice átti skot framhjá stuttu síðar rétt framhjá markinu og á endanum bar sóknarþungi Arsenal árangur þegar Martin Ödegaard stýrði hornspyrnu sinni á nærstöngina á hausinn á Mikel Merino sem stangaði boltanum yfir Robert Sanchez í markinu.

Chelsea var nálægt því að jafna metin eftir rúman hálftíma eftir skelfileg mistök David Raya. Cucurella átti viðstöðulaust skot á lofti sem Raya missti í gegnum sig, en boltinn lak rétt framhjá markinu. Slapp með skrekkinn þarna.

Arsenal fór samt sem áður með verðskuldaða forystu inn í hálfleikinn og var líklegra til þess að bæta við marki í síðari hálfleiknum.

Sanngjarn 1-0 sigur og Arsenal nú tólf stigum frá toppliði Liverpool eftir 29 leiki. Chelsea er í 4. sæti með 49 stig.

Fulham vann þá 2-0 sigur á Tottenham í hinum Lundúnaslag dagsins.

Það voru heimamenn sem voru aðeins betri aðilinn í fyrri hálfleiknum en vantaði upp á opin dauðafæri.

Dominic Solanek fékk nokkur frábær færi í síðari hálfleiknum en var bara ekki að ná að stilla miðið. Besta færi hans kom á 66. mínútu er Bernd Leno varði skot Mathys Tel út á James Maddison sem kom honum fyrir Solanke, en honum brást bogalistin.

Tottenham var refsað fyrir færanýtinguna því tólf mínútum síðar skoraði varamaðurinn Rodrigo Muniz eftir sendingu Andreas Pereira.

Sjö mínútum eftir markið vildu Tottenham-menn fá vítaspyrnu er Calvin Bassey tók Lucas Bergvall niður í teignum. Ekkert var dæmt og nokkrum mínútum síðar gerðu Fulham-menn út um leikinn er Ryan Sessegnon skoraði með stórkostlegu skoti gegn sínum gömlu félögum.

Lokatölur 2-0 fyrir Fulham og vonin um að komast í Evrópukeppni lifir. Liðið er í 8. sæti með 45 stig en Tottenham í 13. sæti með aðeins 34 stig.

Arsenal 1 - 0 Chelsea
1-0 Mikel Merino ('20 )

Fulham 2 - 0 Tottenham
1-0 Rodrigo Muniz ('78 )
2-0 Ryan Sessegnon ('88 )
Athugasemdir
banner
banner
banner