Baleba fer ekki til Man Utd í sumar - Newcastle enn í framherjaleit - Ederson til Galatasaray?
   lau 16. ágúst 2025 10:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Jökull útskýrir óvæntu félagaskiptin - „Þurftum að fara út fyrir þægindarammann"
Jökull fór yfir tíðindi miðvikudagsins.
Jökull fór yfir tíðindi miðvikudagsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Damil Dankerlui er 28 ára hægri bakvörður.
Damil Dankerlui er 28 ára hægri bakvörður.
Mynd: Stjarnan
Alpha Conteh er 25 ára vinstri kantmaður.
Alpha Conteh er 25 ára vinstri kantmaður.
Mynd: Stjarnan
Ibrahim Turay er 24 ára miðjumaður.
Ibrahim Turay er 24 ára miðjumaður.
Mynd: Stjarnan
Steven Caulker, fyrrum landsliðsfyrirliði Síerra Leóne, er spilandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar.
Steven Caulker, fyrrum landsliðsfyrirliði Síerra Leóne, er spilandi aðstoðarþjálfari Stjörnunnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mikilvægur leikur gegn Vestra framundan. Árangurinn til þessa er ekki ásættanlegur.
Mikilvægur leikur gegn Vestra framundan. Árangurinn til þessa er ekki ásættanlegur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Stjarnan er fjórum stigum frá öruggu Evrópusæti eins og stendur.
Stjarnan er fjórum stigum frá öruggu Evrópusæti eins og stendur.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Baldur Logi hefur leyst nokkrar stöður í sumar, þar á meðal hægri bakvörðinn. Jökull finnst hann betri annars staðar á vellinum.
Baldur Logi hefur leyst nokkrar stöður í sumar, þar á meðal hægri bakvörðinn. Jökull finnst hann betri annars staðar á vellinum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Hrafn byrjaði engan leik í sumar og kom við sögu í alls níu í deild og bikar. Hann er á leið til Slóvakíu í læknisnám.
Jón Hrafn byrjaði engan leik í sumar og kom við sögu í alls níu í deild og bikar. Hann er á leið til Slóvakíu í læknisnám.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Haukur kom við sögu í 13 leikjum í sumar og byrjaði þrjá þeirra. Hann er farinn í háskólanám í Bandaríkjunum.
Haukur kom við sögu í 13 leikjum í sumar og byrjaði þrjá þeirra. Hann er farinn í háskólanám í Bandaríkjunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fyrirliðinn Guðmundur Kristjánsson hefur bæði spilað sem miðvörður og bakvörður.
Fyrirliðinn Guðmundur Kristjánsson hefur bæði spilað sem miðvörður og bakvörður.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þorri Mar hefur verið í nokkuð stóru hlutverki í hægri bakverðinum en það gæti verið að breytast.
Þorri Mar hefur verið í nokkuð stóru hlutverki í hægri bakverðinum en það gæti verið að breytast.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Alexander Máni er mikið efni en fékk ekki mínútur inni á vellinum fyrri hluta sumars. Hann er farinn til Midtjylland.
Alexander Máni er mikið efni en fékk ekki mínútur inni á vellinum fyrri hluta sumars. Hann er farinn til Midtjylland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jökull nefndi Bjarka Hauksson sérstaklega sem leikmann sem er nálægt því að spila.
Jökull nefndi Bjarka Hauksson sérstaklega sem leikmann sem er nálægt því að spila.
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Það vakti mikla athygli á lokadegi félagaskiptagluggans þegar Stjarnan tilkynnti um komu þriggja erlendra leikmanna. Tveir landsliðsmenn Síerra Leóne eru orðnir leikmenn félagsins og einn landsliðsmaður Súrinam.

Alpha Bedor Conteh er 25 ára vinstri kantmaður frá Síerra Leóne sem spilaði síðast í Aserbaídsjan, Ibrahim Turay er 24 ára miðjumaður sem spilaði síðast í Síerra Leóne og svo kom stærsta nafnið, 28 ára bakvörðurinn Damil Dankerlui sem spilaði síðast í hollensku B-deildinni.

Fyrr í sumar hafði Steven Caulker skrifað undir samning sem gildir út næsta tímabil. Caulker er spilandi aðstoðarþjálfari hjá Stjörnunni og var fyrir ekki svo löngu landsliðsfyrirliði Síerra Leóne.

Fótbolti.net ræddi við Jökul Elísabetarson, þjálfara Stjörnunnar, um tíðindi miðvikudagsins.

Missa tvo kantmenn og taka inn einn
Hvað er að gerast hjá Stjörnunni með því að fá inn þrjá erlenda leikmenn, hver er pælingin?

„Ef við förum að skilgreina þá eftir þjóðerni, þá flækist málið aðeins. En ef við pælum bara í hópnum og týpu af leikmönnum, þá kannski verður þetta aðeins eðlilegra. Það er margt í þessu, við erum búnir að missa einn kantmann (Hauk Brink) og erum að missa annan kantmann, tökum inn annan kantmann á móti (Alpha Conteh)."

„Heiðar (Ægisson) sleit krossband í aðdraganda mótsins, Andri Adolphs hefur lítið náð að spila - vonandi kemst hann í gang áður en mótið klárast. Það hafa margir leikmenn spilað bakvarðarstöðuna. Við ákváðum að styrkja okkur þar með mjög sóknarsinnuðum og agressífum leikmanni (Damil Dankerlui)."


Enginn hugsaður til skamms tíma
„Svo fáum við inn miðjumann (Ibrahim Turay), menn hafa örugglega alls konar skoðanir á því. 'Box-to-box' miðjumaður, mjög agressífur í að skila sér inn á teigana báðu megin."

„Enginn af þessum leikmönnum er hugsaður bara út tímabilið, allt hugsað til lengri tíma og allt eitthvað sem er búið að hugsa og skoða til lengri tíma. Þetta er ekki tekið inn á síðustu stundu af því bara, þetta eru ekki ákvarðanir sem eru teknar undir lok gluggans eins og þetta kannski lítur út fyrir að vera."

„Við erum búnir að selja marga unga leikmenn út, það þarf ekki að skilgreina menn eftir aldri, en við erum búnir að missa marga skapandi leikmenn úr liðinu. Það eru þeir leikmenn sem allir eru að leita að og eru keyptir. Það er eðlilegt að við sækjum og styrkjum stöðurnar hjá okkur framar á vellinum. Við erum líka að styrkja liðið."


Úr engum í fjóra erlenda leikmenn
„Það er út úr þægindaramma okkar allra að sækja leikmenn sem kannski þekkja ekki umhverfið, þekkja ekki deildina og hafa ekki spilað hérna. Það breytist aðeins kúltúrinn; förum úr því að vera eina liðið með engan útlending og erum núna komnir með þrjá plús Caulker. Það er hollt fyrir okkur að fara út úr þægindarammanum. Ég held að við höfum náð að taka eins lítinn séns (e. gamble) og hægt er. Þegar þú sækir menn sem þekkja ekki til, hafa ekki verið hérna áður, þá fylgir því einhver áhætta, en við gerum það ekki að gamni okkar að gambla með leikmenn inn í hópinn. Hópurinn okkar skiptir okkur miklu máli. Ég held þetta sé spennandi."

Vildi meiri samkeppni um bakvarðarstöðuna
Utan frá virkar eðlilegt að Stjarnan taki inn kantmann, skapandi leikmann, fyrst að einn leikmaður er farinn og annar á útleið. En með bakvörðinn, þeir Samúel Kári, Þorri Mar, Guðmundur Kristjáns og Baldur Logi hafa spilað hægri bakvörðinn í sumar. Öskraði samt á þig að þú vildir styrkja þessa stöðu?

„Klárlega. Mér finnst það ekki spurning. Við erum með sterka bakverði. Gummi Kristjáns er leikmaður sem er mjög sterkur í hafsentinum og gefur okkur mikið í bakverðinum, er mjög skemmtilegur fram á við. Miðað við að vera kannski stimplaður sem jaxl, þá er hann skapandi leikmaður og einstaklingur."

„Mér hefur fundist okkur vantað meiri samkeppni um stöðuna, menn að ýta við hvor öðrum þar. Aðrir hafa staðið sig vel, Baldur hefur staðið sig vel, þegar hann hefur verið berskjaldaður í sinni stöðu þá er það yfirleitt meira á öðrum leikmönnum að hjálpa ekki til, og eitthvað sem við höfum þurft að laga. Baldur er sterkari í öðrum stöðum og með þessu erum við að styrkja liðið með því að þeir sem hafa verið að spila stöðuna eru þá að berjast um stöður þar sem þeir eru sterkari. Fyrir mér erum við klárlega að styrkja liðið með þessu."


Verður erfitt fyrir einhverja leikmenn
Varðandi miðjumanninn, þú talar um að það sé hugsað til framtíðar líka, ertu að sjá fyrir þér að það muni fækka í miðjumannahópnum í náinni framtíð?

„Eins og góður maður sagði þá er oftast erfitt að spá, sérstaklega um framtíðina. Ég veit ekkert hvað verður, það verður bara að koma í ljós. Ég held að eðli aukinnar samkeppni sé að menn stíga upp, þegar lið þróast þá stíga einhverjir leikmenn upp og aðrir kannski ekki. Svo bara þróast og breytast lið áfram. Hópurinn stækkar mjög mikið og er svolítið stór núna, en það er mikil samkeppni sem er gott. Það verður erfitt fyrir einhverja leikmenn, en þannig er það bara. Ég veit ekkert hvað gerist, einhverjir munu kannski vilja fara, einhverjir munu þurfa að fara til að njóta sín annars staðar. Alveg sama hvað gerist, þá mun maður reyna hjálpa öllum að blómstra, hvort sem það er hjá okkur eða annars staðar."

„Það er ekki búið að taka neina ákvörðun um hvað verður gert í næsta glugga. Akkúrat núna, þá eru níu leikmenn eftir, níu úrslitaleikir, erum að styrkja liðið fyrir þessa níu leiki og ætlum okkur hærra. Fókusinn er bara þar núna, þeir sem eru, þeir eru hluti af því sem við erum að gera, þeir þurfa að vera klár í hvað sem býður þeirra."


Getur ekki pælt í stærð hópsins núna
Kantmennirnir tveir klára ekki tímabilið og Kjartan Már var seldur til Aberdeen. Fjórir leikmenn eru komnir í glugganum. Finnst þér þú ekkert vera með of stóran hóp?

„Ég veit það ekki, það gæti alveg verið. Það mun þá bara koma í ljós og ef það er, þá verðum við að leiðrétta það í framhaldinu með einhverjum hætti. Akkúrat núna þá er ég með frábæran hóp, fáránlega öflugan hóp af einstaklingum sem er þéttur sem lið. Ég get ekki verið að hugsa um neitt annað, við erum í þessu saman og menn eru tilbúnir að leggja mikið á sig. Ég get ekki verið að pæla í því (stærð hópsins) akkúrat núna. Síðustu mánuðirnir af mótinu verða að leiða það í ljós."

Hópurinn verði að díla við það
Það vekur athygli að þessi skipti fara öll í gegn á lokadegi félagaskiptagluggans. Menn innan hópsins, sem kannski sjá fyrir sér breytt hlutverk, fá ekki mikinn tíma til að meðtaka tíðindin áður en glugginn er lokaður. Hefur þú orðið var við að menn setja spurningarmerki núna við sína stöðu í hópnum?

„Það er mjög eðlilegt að menn velti því fyrir sér og verði hugsi yfir sinni stöðu, og kannski sérstaklega þeir sem hafa spilað minna. Ég fékk ekkert til mín og held og treysti því að menn geti leitað til okkar, hver sem það er innan félagsins, ef þeir nauðsynlega þurfa að breyta til í ljósi þess að leikmenn koma."

„Það er auðvitað þannig að það er ekki komið í ljós fyrir hvern og einn. Hvort sem þetta hefði komið á lokadeginum, eða viku fyrr, þá er ekkert víst að menn hefðu endilega getað lesið í stöðuna eða vitað hvernig hún væri - eða ég getað sýnt fram á hvernig þetta verður. Ég veit að það er leikur á sunnudaginn og er ekkert búinn að klára neitt meira en þann leik."

„Þetta verður alltaf erfið staða, erfið fyrir leikmenn. Það verða einhverjir út úr hóp og einhverjir á bekknum sem vilja fá fleiri mínútur. Við sem hópur verðum að díla við það, það er bara hluti af þessu."


Vitað að mínútur yngri leikmanna myndi ekki fjölga
Utan frá hefur maður litið á Stjörnuna og hugsað að Stjarnan sé lið þar sem ungir leikmenn munu fá tækifæri ef þeir eru nógu góðir. Með því að fá inn fjóra erlenda leikmenn í þessum glugga, þá lítur það þannig út að það verði erfiðara fyrir unga og efnilega leikmenn að komast inn í hópinn. Sérð þú þetta eins?

„Þeir ungu leikmenn sem hafa verið seldir á síðustu þremur árum eru margir, þeir hafa eingöngu verið í meistaraflokki í eitt ár eða meira. Við erum búnir að vita í mjög langan tíma á þessu tímabili að ef okkur tækist að koma þessum ungu leikmönnum sem hafa verið með okkur út, þá yrðu færri mínútur hjá ungum leikmönnum á þessu tímabili. Það er búið að vera vitað hjá okkur í langan tíma. Ég fylgist ekki með umfjölluninni, en ég yrði mjög hissa ef menn eru ekki búnir að rýna í mínútur ungra leikmanna hjá okkur. Við erum með stráka... Bjarki Hauks (2006) er mjög nálægt þessu, hann meiddist í upphafi sumar, annars væri hann búinn að vera spila. Akkúrat núna er hann að bíða eftir tækifæri og að vinna sig inn aftur. Það eru fleiri ungir, nánast vikulega erum við taka inn nýja unga leikmenn á æfingar. Við erum með augun á því og erum byrjaðir að pæla í þróun næstu ungu leikmannanna; hvernig við viljum koma þeim inn í þetta."

„Það er mikilvægt fyrir okkur að það verði leið fyrir þá inn og tíminn verður aftur að sýna fram á að við höfum einhverja hugmynd um hvað við erum að gera. Akkúrat núna þá fjölgar ekki mínútum ungra leikmanna á þessu tímabili, en það var bara vitað."


Með fókus á fleiri leikmönnum en toppunum
Segjum sem svo að Tómas Óli Kristjánsson (AGF), Gunnar Orri Olsen (FCK) og Alexander Máni Guðjónsson (Midtjylland) væru í hópnum, væru þá mínúturnar búnar að vera fleiri hjá yngri mönnum?

„Það er alveg pottþétt. En á móti kemur þá var Alexander með okkur núna framan af, og spilaði ekki. Hann spilaði hjá okkur í fyrra."

„Gunni og Tommi, þeir voru komnir mjög langt. Gunni spilaði í fyrra, var besti maðurinn á vellinum eftir að hann kom inn á. Tommi er einstakur leikmaður sem dripplari. Auðvitað væri það þannig að þeir væru að fá mínútur. Það sem við höfum misst eru ekki bara lykilleikmenn, heldur líka menn sem fara út áður en þeir verða lykilleikmenn hjá okkur. Það verður þannig áfram, við munum áfram missa leikmenn sem ná ekki að verða meistaraflokksleikmenn hjá okkur því þeir fara það snemma út. Við erum með fókus á miklu fleiri leikmönnum en bara toppunum. Við erum að pæla í miklu fleiri leikmönnum í 2. og 3. flokki en bara þeim. Það er hlutverk okkar sem félags að velta því fyrir okkur hvernig við gerum það. Inn í því eru yngri flokka þjálfarar, yfirþjálfarar og allir sem koma að því. Við munum pæla áfram í því."


Það sterkir leikmenn að þeir hefðu alltaf verið sóttir
Tveir landsliðsmenn frá Síerra Leóne, ertu sjálfur mikið að skoða þá leikmenn eða ertu að fá mjög sterk meðmæli frá aðstoðarþjálfaranum?

„Ég skoðaði eins mikið og ég gat af þessum leikmönnum. Þeir koma báðir þannig að við ræðum hvað það er sem við viljum horfa í. Hann hefur ákveðið tengslanet og við ræðum við þá sem við þekkjum. Svo skoðum við allt sem kemur inn. Þessir tveir augljóslega komu til okkar í gegnum hann. Það er ekki að ýta þeim í gegn, ekkert þannig, við metum stöðuna og þeir eru þannig að við værum alltaf að fara taka þá inn, mjög sterkir leikmenn."

„Damil kemur í gegnum umboðsmann, mjög sterkur leikmaður sem við tökum inn líka. Við byrjuðum á að skoða hvað það væri sem við viljum leita að, svo athuguðum við hvort eitthvað sé í boði að við teljum að geti hjálpað liðinu og hópnum, sigtum úr og pössum á að taka eins lítinn séns og hægt er."


Býr meira í liðinu og þurftu að fara út fyrir þægindarammann
Segir koma þessara leikmanna þeim sem fylgjast með deildinni að þið viljið meira en þið hafið fengið, betri árangur?

„Ég er mjög ánægður með það sem við gerðum í fyrra, auðvitað hefðum við getað endað ofar, en um leið og við förum í einhvern ef og hefði leik, þá hefði Valur (sem endaði í sætinu fyrir ofan) líka getað náð í einhver stig einhvers staðar. Við fengum bara það sem við áttum skilið."

„Við vorum með mikið af ungum leikmönnum. Við vorum að spila Evrópuleiki þar sem að miðjan okkar eins og hún leggur sig var á 2. flokks aldri, það bara þekkist ekki. Við endum í 4. sæti sem oft gefur Evrópusæti. Árið þar á undan var auðvitað stórkostlegt. Hvað það varðar held ég að við getum verið ánægðir."

„En sumarið í sumar, auðvitað líka einhverjir kaflar í fyrra, þá horfir maður í að það býr meira í liðinu en það sem við sem hópur höfum náð að knýja fram. Stundum er leiðin að taka eitthvað inn og ýta við liðinu utan frá. Hingað til höfum við mest horft í að gera það innan frá, hvort sem það snýr að ungum leikmönnum eða meira púður í því sem við gerum innan og utan vallar. Þetta er það sem við ákváðum að gera núna, þetta er allt öðruvísi, og raunverulega út fyrir þægindarammann fyrir mig og marga. Það er sterkt, það er það sem við þurfum að gera. Við tölum um leikmennina, við þjálfarateymið og félagið þarf líka að vera tilbúið í það líka. Við viljum meira og trúum á að hópurinn geti gert meira."


Ætla sér að verða betri og komast ofar
Níu leikir eftir, ertu að horfa í bætta frammistöðu eða er markmiðið að enda ofar en þið eruð núna?

„Góð spurning. Ég er bara þannig að ég verð að sjá liðið verða betra. Við höfum orðið betri á ákveðnum sviðum í sumar, ég vil sjá okkur vera með boltann, það býr töluvert mikið meira í okkur í því en við höfum sýnt. Í síðustu leikjum höfum við orðið töluvert sterkari varnarlega, Caulker er búið að taka liðið vel í gegn hvað það varðar."

„Við viljum verða betri og við ætlum okkur ofar í töfluna. Það má alveg ætla sér hvort tveggja, og það er það sem við ætlum. Ég held að til þess að fara ofar, þá þurfum við að verða betri."


Hefur þú fengið þau skilaboð að það sé krafa að enda í Evrópusæti?

„Nei."

Ibrahim ekki kominn til landsins
Hvernig leggst leikurinn á móti Vestra í þig og verða nýju leikmennirnir þrír allir í hóp?

„Ibrahim er ekki kominn til landsins, þannig hann verðu ekki í hóp, það er verið að ganga frá nokkrum hlutum með hann, veit ekki hvort hann verði klár í næsta leik á eftir eða hvernig það verður. Alpha og Damil verða báðir í hóp."

„Leikurinn leggst vel í mig, við verðum með marga leikmenn (fjóra) í banni og ég hef ekki áhyggjur af því, við erum með stóran hóp og það koma sterkir leikmenn inn. Þetta verður erfiður leikur, fyrri leikurinn var mjög erfiður, við byrjuðum frábærlega og svo tók Vestri yfir og átti mikið hrós skilið fyrir hvernig þeir spiluðu þann leik; voru bara sterkara liðið."

„Ef við höldum að við þurfum að gera eitthvað minna, leggja minna á okkur en á móti Víkingi, þá munum við lenda í vandræðum. Ef við verðum tilbúnir í að leggja inn sömu vinnu, sýna sömu ákefð og hugrekki, þá getum við tekið eitthvað út úr þessum leik og haldið áfram að horfa upp á við,"
segir Jökull.
Athugasemdir
banner