
„Á köflum vorum við mjög góðar en við áttum líka slæma kafla. Þær hefðu getað refsað okkur í lokin en það hefði verið okkur sjálfum að kenna. Heilt yfir var þetta í lagi," sagði landsliðsmarkvörðurinn Guðbjörg Gunnarsdóttir eftir 4-0 sigur gegn Slóvenum á Laugardalsvelli í kvöld.
Lestu um leikinn: Ísland 4 - 0 Slóvenía
„Það hefði verið hrikalegt að fá á sig mark núna ef það hefði verið bara gjöf frá okkur sjálfum. Við reynum auðvitað að halda markinu hreinu eins lengi og við getum."
Hún segir það ekki hafa breytt undirbúningi liðsins fyrir leik að hafa vitað að EM sætið væri í höfn. „Nei í rauninni ekki. Markmiðið var skýrt fyrir keppnina, að vinna riðilinn. Þó að EM sætið sé í höfn ætlum við okkur ennþá að vinna þennan riðil."
Hún segist stefna á að halda hreinu gegn Skotlandi á þriðjudag en þá myndi íslenska liðið klára undankeppnina án þess að fá á sig mark. „Ég vona það. að ná því væri eitthvað sem mér hefði ekki einu sinni dottið í hug fyrir keppnina. Við tökum bara einn hálfleik í einu og vonum það besta."
Liðið komst í 8-liða úrslit á EM 2013 og segir eðlilegt að stefna hærra á EM 2017. „Að sjálfsögðu eigum við að stefna lengra núna. Mér finnst liðið bara komið á þann stall að við eigum að geta sett okkur stærri markmið en nokkru sinni áður. Við setjum okkur markmiðin þegar nær dregur."
Athugasemdir