fös 16. september 2022 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Laugardalsvelli
„Eru eiginleikar sem við eigum ekkert rosalega mikið af"
Mikael Egill Ellertsson.
Mikael Egill Ellertsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Undanfarna mánuði hefur verið talað um að það hafi oft ekki verið hin fullkomna blanda; það hafi vantað reynda menn með þessum ungu og efnilegu," sagði Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.

„Við höfum verið með eitt yngsta landslið Evrópu. Þetta hægir á þróuninni á liðinu. Þessir ungu leikmenn þurfa að hafa reynslubolta sér við hlið. Nú koma reyndir menn inn til að jafna þessa blöndu aðeins. Aron, Alfreð og Guðlaugur Victor eru að koma inn. Þeir hjálpa strákunum innan sem utan vallar."

Nýr landsliðshópur var tilkynntur í dag og koma reyndari leikmenn aftur inn eins og má sjá með því að smella hérna.

Margir ungir leikmenn hafa verið að taka hlutverk í síðustu verkefnum, en núna fá þeir fleiri eldri leikmenn með sér og kemur það til með að hjálpa.

Þetta hefur ekki verið dans á rósum fyrir þessa ungu leikmenn. Til að mynda var Mikael Egill Ellertsson, sem er tvítugur, mikið gagnrýndur fyrir frammistöðu sína í vináttulandsleik gegn San Marínó í sumar. Mikael Egill er núna að spila með Spezia í Serie A, efstu deild Ítalíu.

„Stigið sem Mikael Egill er að spila á kemur mér ekkert á óvart því ég hef alltaf haft mjög mikla trú á honum sem leikmanni," sagði Arnar.

„Hans styrkleikar eru eiginleikar sem við eigum ekkert rosalega mikið af í okkar hóp. Það er rosalegur kraftur í Mikka og hann er rosalega fljótur. Ég hef mjög mikla trú á honum sem leikmanni. Það að það sé einhver gagnrýni fyrir ákveðinn leik er mjög eðlilegt í fótbolta. Það sem við þurfum að gera er að halda áfram að þróa þetta lið."

Kemur það til með að hjálpa þróuninni að fá þessa eldri leikmenn með. Arnar talaði jafnframt um það á fundinum að leikmenn væru að spila á góðum stigum og í Evrópukeppnum, hópurinn væri á góðum stað sem væri mjög gaman að sjá.
Athugasemdir
banner
banner
banner