
Orri Steinn Óskarsson spilaði á dögunum sinn fyrsta A-landsleik er hann kom inn á í 3-1 tapi Íslands gegn Lúxemborg, en aðeins nokkrum dögum síðar byrjaði hann í 1-0 sigri á Bosníu og Hersegóvínu á Laugardalsvelli. Óskar Hrafn Þorvaldsson, þjálfari Breiðabliks og faðir Orra, talaði við Fótbolta.net um þessi stóru skref sem framherjinn hefur tekið á síðustu vikum og mánuðum.
Seltirningurinn byrjaði sinn fyrsta leik gegn Bosníu og gerði vel að þreyta vörn Bosníu.
Hann spilaði sem fremsti maður en kom oft inn á miðju og tók djúp hlaup.
Óskar Hrafn sagði við Fótbolta.net að hann fylltist stolti að sjá drenginn spila með A-landsliðinu.
„Það var auðvitað frábært. Meiriháttar gaman að sjá drenginn byrja þennan leik og standa sig með sóma. Það er meiriháttar gaman, sem foreldri og við hjónin vorum mjög stolt af honum og stolt af liðinu fyrir að klára þennan leik og bara flottur fulltrúi fjölskyldunnar í þessum leik. Þetta er ekki auðvelt hlutverk að leiða línuna í íslenska landsliðinu, það er ekki lítið hlutverk þannig ég er mjög stoltur,“ sagði Óskar.
Orri átti erfitt með að brjóta sér leið inn í lið FCK á síðasta ári. Hann fékk mínútur hér og þar áður en hann var lánaður til SönderjyskE í B-deildinni. Það var svo í sumar þar sem hann fékk traustið frá Jakob Neestrup, þjálfara FCK, en síðan þá hefur hann spilað stórt hlutverk í liðinu.
Óskar viðurkennir það að hann sá ekki fyrir að hlutirnir myndu gerast svona hratt.
„Nei, ég var ekki búinn að gera það. Það er engin línuleg samfella í fótbolta. Fótboltaferill hefur tilhneigingu til að vera í stökkum og það er ekki langt síðan hann upplifði sig fastan, mitt á milli unglingaliðs FCK og aðalliðsins. Stuttu seinna er hann farinn að byrja leiki í FCK og kominn í A-landsliðið, en nei ég sá þetta ekki fyrir, alla vega ekki þennan hraða. Ég veit að hann er efnilegur og hefur alla burði að ná langt en ég sá ekki fyrir þennan hraða. Þegar menn fá tækifæri og ná að grípa þau þá geta menn tekið stór skref hratt. Svo snýst þetta um að halda löppunum á jörðinni og halda áfram að vera duglegur,“ sagði hann enn fremur.
Athugasemdir