Gylfi Þór Sigurðsson og Mason Greenwood snúa aftur í heim tölvuleikjanna á þessu tímabili.
Leikmennirnir voru báðir teknir út úr Football Manager og FIFA, vinsælustu fótbolta tölvuleikjum heimsins, eftir að þeir voru settir í bann.
Gylfi var til rannsóknar vegna brots gegn ólögráða einstaklingi og spilaði ekki með Everton í tæp tvö ár áður en málið var látið niður falla.
Greenwood var handtekinn snemma á síðasta ári eftir að kærasta hans, Harriet Robson, deildi myndefni af áverkum sínum sem hún sagði vera af hendi Greenwood , ásamt því að deila hljóðupptöku þar sem hann reynir að þvinga hana til samræðis.
Það mál var einnig látið niður falla eftir að ný sönnunargögn komu upp á yfirborðið.
Sports Interactive, framleiðandi Football Manager, hefur alla tíð sagt að ef leikmaður er til rannsóknar af lögregluyfirvöldum, þá verði sá og hinn sami ekki í leiknum eða fjarlægður í næstu uppfærslu. Það var gert við bæði Greenwood og Gylfa en þeir voru ekki í Football Manager 2023, sem kom út á síðasta ári. Gylfi var ekki heldur í leiknum sem kom árið á undan.
Greenwood og Gylfi voru báðir í FIFA 22, sem kom út árið 2021, en Greenwood var fjarlægður úr leiknum snemma í febrúar 2022. Þó gátu spilarar enn notað hann í Ultimate Team, þar sem hægt er að búa til eigið draumalið.
Hvorugur þeirra var í FIFA 23 leiknum en þeir koma nú með endurkomu í nýjustu útgáfunni, EA Sports FC 24.
Gylfi Þór samdi á dögunum við Lyngby á meðan Greenwood var lánaður til Getafe á Spáni.
Spilarar þurfa þó að bíða þolinmóðir eftir endukomu þeirra þar sem fresturinn til að skila gögnum til EA var runninn út.
Ekki er ljóst hvenær þeir mæta í leikinn, en það má áætla að það verði í janúar, í kringum gluggalok.
Báðir verða hins vegar í Football Manager 2024 sem kemur 6. nóvember.
Algjörlega óvíst hvað verður um Antony
Antony, leikmaður Manchester United, er í launuðu leyfi frá störfum og má því ekki æfa né spila með liðinu á meðan hann er til rannsóknar vegna líkamsárásar á fyrrverandi kærustu sína, Gabrielu Cavallin.
Leikmaðurinn samþykkti að fara í leyfi en samkvæmt reglunum verður hann ekki í nýju útgáfunni af Football Manager. Hann er hins vegar í EA Sports FC 24 og er alveg óljóst hvort hann verði áfram þar en framleiðandinn fylgist væntanlega grannt með stöðu mála.
Athugasemdir