De Bruyne og Grealish til Napoli? - Rodrygo og Frimpong til Liverpool - Al Hilal vill tvo frá Liverpool - Tveir orðaðir frá Newcastle
   lau 16. september 2023 14:26
Ívan Guðjón Baldursson
Klopp: Verðum að bæta okkur
Mynd: EPA

Jürgen Klopp var kátur eftir endurkomusigur Liverpool á útivelli gegn Wolves en hann var ekki sáttur með frammistöðu liðsins í fyrri hálfleik.


Úlfarnir voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddu með eins marks mun en hefðu hæglega getað tvöfaldað eða þrefaldað forystuna með betri færanýtingu. Liverpool tók völdin á vellinum í seinni hálfleik og verðskuldaði sigurinn að lokum.

„Við verðum að spila betur heldur en við gerðum í þessum fyrri hálfleik. Við vorum ekki nægilega góðir í fyrri hálfleik, líkamleg vandamál voru að hrjá okkur. Við gerðum mistök í matinu á orkustigi leikmanna eftir landsleikjahléð en við löguðum það með skiptingum," sagði Klopp og átti þar meðal annars við Alexis Mac Allister sem var lélegur í fyrri hálfleik og var skipt útaf í leikhlé fyrir Luis Diaz.

„Ég var sáttur þegar hann flautaði til leikhlés útaf því að þetta var loksins búið. Ég hélt að við gætum ekki spilað verr, þess vegna breyttum við um taktík og gerðum skiptingar. Sem betur fer þá virkaði það. Við vorum frábærir í seinni hálfleik og verðskulduðum sigurinn.

„Við getum ekki alltaf treyst á að koma til baka til að sigra leiki þegar við lendum undir. Við verðum að bæta frammistöðuna í fyrri hálfleikjum en við erum ennþá í aðlögunarferli útaf því að það er svo mikið af nýjum leikmönnum. Ég er mjög ánægður með viðbrögðin sem strákarnir sýndu í dag en við getum ekki haldið áfram að lenda undir í leikjum."

Liverpool er tímabundið á toppi ensku úrvalsdeildarinnar með 13 stig eftir 6 umferðir.


Athugasemdir
banner
banner