Lingard er að æfa með West Ham United þessa dagana og hefur David Moyes knattspyrnustjóri áhuga á að semja við miðjumanninn sóknarsinnaða.
Lingard er þó ekki búinn að gefa samþykki fyrir samningi við West Ham þar sem mikill áhugi er á honum frá félögum í Sádí-Arabíu, Tyrklandi, Katar og Bandaríkjunum. Enskir miðlar hafa talað um að Lingard sé ekki sáttur með samningstilboð Hamranna og sé að nýta áhugann utan landsteinanna til að fá betra tilboð.
„Jesse hefur æft með okkur síðustu vikur og við höfum séð miklar bætingar á hans leik á þeim tíma. Hann er kominn í mikið betra líkamlegt stand heldur en þegar hann kom hingað og gæti reynst mikilvægur leikmaður fyrir okkur. Ég man þegar hann kom til okkar á láni fyrir tveimur árum og skoraði held ég 9 mörk í 15 leikjum. Hann gerði gæfumuninn það tímabilið, sem var í fyrsta sinn sem við komumst í Evrópu með þessum hópi," segir Moyes.
„Ég vil gefa honum tækifæri og sjá hvernig honum tekst að fóta sig en eins og staðan er í dag þá verðum við bara að bíða og sjá."
Hamrarnir hafa farið vel af stað á nýju úrvalsdeildartímabili og eiga tíu stig eftir fjórar umferðir, eftir frækna sigra gegn Chelsea og Brighton.
Lingard er 30 ára gamall og tókst hvorki að skora né leggja upp í 17 úrvalsdeildarleikjum á láni hjá Nottingham Forest á síðustu leiktíð.