Það var nóg af Íslendingaleikjum á dagskrá í dag þar sem Orri Steinn Óskarsson og Stefán Ingi Sigurðarson komust báðir á blað.
Nordsjælland 2 - 2 Kaupmannahöfn
0-1 Orri Steinn Óskarsson ('16)
1-1 J. Tverskov ('27)
1-2 Mohamed Elyounoussi ('54)
2-2 M. Frese ('62)
Anderlecht U23 1 - 3 Patro Eisden
1-0 A. Colassin ('1)
1-1 B. Dansoko ('16)
1-2 Stefán Ingi Sigurðarson ('54)
1-3 E. Sam ('87)
Óskar Steinn var í byrjunarliði FC Kaupmannahafnar og skoraði eftir sextán mínútna leik í 2-2 jafntefli á útivelli í nágrannaslagi gegn Nordsjælland.
Orri spilaði fyrstu 62 mínútur leiksins en var svo skipt út fyrir Andreas Cornelius. FCK er á toppi dönsku deildarinnar með 19 stig eftir 8 umferðir og kemur Nordsjælland í öðru sæti með 17 stig.
Stefán Ingi Sigurðarson skoraði þá í góðum sigri Patro Eisden gegn varaliði Anderlecht í B-deild belgíska boltans. Þetta var fyrsti byrjunarliðsleikur Stefáns Inga í deildinni frá flutningnum til Belgíu og skoraði hann um leið annað deildarmarkið sitt hjá nýju félagi.
Hann fékk tækifæri í byrjunarliðinu eftir að hafa skorað bæði mörk Patro Eisden í bikarsigri um síðustu helgi.
Stefáni var skipt af velli á 85. mínútu fyrir Elisha Sam sem skoraði svo tveimur mínútum síðar til að innsigla sigurinn. Patro Eisden er með tíu stig eftir fimm umferðir.
Sirius 7 - 0 Varberg
Göteborg 1 - 0 Brommapojkarna
Brage 1 - 1 Trelleborg
Næst er komið að Svíþjóð þar sem Aron Bjarnason kom við sögu í risasigri Sirius gegn Oskari Tor Sverrissyni og félögum í Varberg. Heimamenn í Sirius unnu leikinn 7-0 og var Óli Valur Ómarsson ónotaður varamaður í heimaliðinu.
Þetta eru mikilvæg stig fyrir Sirius í fallbaráttunni en Varberg er svo gott sem fallið þó það séu enn sjö umferðir eftir af tímabilinu.
Kolbeinn Þórðarson var þá í byrjunarliðinu hjá Göteborg í 1-0 sigri gegn Brommapojkarna og var Adam Ingi Benediktsson ónotaður varamaður. Göteborg er að forðast fallhættuna eftir hrikalegan fyrri hluta tímabils. Liðið er á frábærri siglingu og búið að sigra fjóra af síðustu fimm deildarleikjum sínum.
Í B-deildinni var Böðvar Böðvarsson á sínum stað í vinstri bakverði er Trelleborg gerði jafntefli við Brage í fallbaráttunni.
Reading 2 - 1 Bolton
Blackburn 2 - 1 Middlesbrough
FA 2000 1 - 2 Esbjerg
Arnór Sigurðsson var þá ekki í hópi hjá Blackburn Rovers í sigri gegn Middlesbrough vegna meiðsla á meðan Jón Daði Böðvarsson fékk að spila lokamínúturnar í 2-1 tapi gegn Reading.
Blackburn á 10 stig eftir 6 umferðir í B-deild enska boltans á meðan Bolton er með 13 stig eftir 7 umferðir í C-deildinni.
Að lokum var Ísak Óli Ólafsson ónotaður varamaður í sigri Esbjerg sem er á toppi dönsku C-deildarinnar.