
Slúðrið býður góða helgi eftir langt landsleikjahlé sem hefur verið erfitt fyrir marga. Það er úr nógu að taka þrátt fyrir að félagsskiptaglugginn opnist ekki fyrr en rétt eftir áramót.
Jadon Sancho, 23, er tilbúinn til að yfirgefa Manchester United í janúarglugganum eftir opinber rifrildi sín við Erik ten Hag. Ólíklegt er að hann muni spila aftur fyrir félagið. (Manchester Evening News)
Erik ten Hag mun ekki bakka í þessu máli þar sem hann heimtar að fá bæði persónulega og opinbera afsökunarbeiðni frá Sancho eftir að leikmaðurinn sakaði Ten Hag um lygar. (ESPN)
Hugo Ekitike, 21, vildi ganga í raðir West Ham í sumar en enska félagið náði ekki samkomulagi við Paris Saint-Germain um kaupverð. (Football Insider)
FC Bayern ætlar að reyna aftur við Trevoh Chalobah, 24 ára varnarmann Chelsea, í janúar. (Football Insider)
Paul Winstanley og Laurence Stewart, yfirmenn fótboltamála hjá Chelsea, hafa komið félaginu sínu til varnar eftir mikla gagnrýni vegna óhóflegrar peningaeyðslu frá því að Todd Boehly keypti félagið. (Metro)
Boca Juniors er að undirúa nýjan samning við Valentin Barco, 19 ára vinstri bakvörð sem er eftirsóttur af Manchester City. Barco verður meðal launahæstu leikmanna Boca ef hann skrifar undir. (Diario AS)
Man City reyndi sitt besta til að kaupa ungstirnið Lamine Yamal, 16 ára, í sumar. Yamal hefur byrjað alla deildarleiki Barcelona á upphafi tímabils nema einn og skoraði á dögunum með spænska landsliðinu í undankeppni EM. (Marca)
Jean-Clair Todibo, 23 ára varnarmaður sem skipti yfir til OGC Nice á frjálsri sölu í sumar, segist hafa hafnað tækifærinu til að ganga í raðir Manchester United útaf því að hann var hræddur um að það gætu verið mistök. (L'Equipe)
Kevin Thelwell, yfirmaður fótboltamála hjá Everton, skilaði inn þremur mismunandi áætlunum fyrir möguleg næstu skref félagsins á leikmannamarkaðinum. Köld viðbrögð eigenda félagsins við uppástungum Thelwell gefa í skyn að eigendurnir hafi engan áhuga á að fjárfesta frekar í Everton. (Football Insider)
Liverpool er ekki nálægt því að ná samkomulagi við Bayer Leverkusen um kaupverð á miðverðinum öfluga Piero Hincapie, 21 árs, þrátt fyrir orðróma. (Football Transfers)
Arsenal er sannfært um að Martin Ödegaard fyrirliði muni skrifa undir nýjan samning. (ESPN)
Arsenal ætlar einnig að framlengja samning Ben White, 25, þrátt fyrir að varnarmaðurinn eigi rétt tæp þrjú ár eftir af núverandi samningi sínum. (Metro)
Thorgan Hazard fór frá Borussia Dortmund til Anderlecht í sumar og vill fá eldri bróður sinn, hinn samningslausa Eden Hazard, til að ganga til liðs við sig í belgíska boltanum. Hazard-bræðurnir voru saman hjá Chelsea í þrjú ár en hafa annars aldrei verið liðsfélagar nema með belgíska landsliðinu og uppeldisfélaginu. (Sport)
Robert Lewandowski, 35, segist ekki hafa áhuga á að skipta yfir til Bandaríkjanna eða Sádí-Arabíu. Hann sé hamingjusamur hjá Barcelona. (AS)
UEFA er að skoða breytingar á Meistaradeild kvenna til að stækka keppnina og auka spennuna. (Times) .