mið 16. nóvember 2022 16:16
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Varane: Ummæli Ronaldo hafa áhrif á hópinn
Mynd: EPA
Cristiano Ronaldo fór í viðtal til Piers Morgan á dögunum og hafa verið birt brot úr viðtalinu. Fyrri hluti þess verður svo birtur í kvöld og sá seinni á morgun.

Í viðtalinu fór Ronaldo ófögrum orðum um stjóra Manchester United sem og skaut föstum skotum á félagið sem og aðra einstaklinga tengdu því. Talinn er góður möguleiki á því að Ronaldo hafi leikið sinn síðasta leik fyrir félagið.

Liðsfélagi Ronaldo, Raphael Varane, var spurður út í Ronaldo í viðtali við frönsku útvarpsstöðina Europe1.

„Auðvitað hefur þetta áhrif á okkur. Við fylgjumst með því sem er að gerast og hvað er sagt," sagði Varane sem staddur er með franska landsliðinu sem undirbýr sig fyrir HM.

„Við reynum að róa ástandið á okkar hátt, reynum að blanda okkur ekki of mikið inn í það. Það sem gerist í fjölmiðlum í kringum stóru félögin fær mikla athygli."

„Þegar þetta snýr að stjörnu eins og Ronaldo, þá reynum við enn frekar að vera í smá fjarlægð, þ.e. að enginn einn aðili reynir að breyta einhverju upp á sitt einsdæmi, við erum hluti af hóp."

„Það sem ég vil er það sem er best fyrir liðið mitt, svo sama hver ákvörðunin verður, þá munum við sem leikmenn samþykkja hana og gera okkar besta fyrir liðið og okkur sjálfa,"
sagði Varane.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner