fös 17. janúar 2020 18:20
Ívan Guðjón Baldursson
Bournemouth ætlar að fá Bruun Larsen frá Dortmund
Mynd: Getty Images
Bournemouth er í viðræðum við Borussia Dortmund um að fá danska kantmanninn Jacob Bruun Larsen að láni út tímabilið.

Larsen er 21 árs gamall og hefur verið hjá Dortmund síðan 2015. Hann var lykilmaður upp yngri landslið Dana en hefur ekki tekist að festa sig í sessi í sterku byrjunarliði Dortmund. Þar er hann í samkeppni við menn á borð við Thorgan Hazard og Jadon Sancho.

Larsen hefur aðeins komið við sögu í fjórum deildarleikjum á tímabilinu og vill þýska toppbaráttuliðið helst selja hann.

Sky Sports greinir frá því að félögin eru í viðræðum og bendir á að líklegasta lausnin sé sex mánaða lánssamningur með kaupmöguleika næsta sumar.

Bournemouth hefur átt í miklum vandræðum með sóknarleikinn á tímabilinu og er aðeins búið að skora 20 mörk eftir 22 umferðir. Liðið situr óvænt í næstneðsta sæti úrvalsdeildarinnar með 20 stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner