Newcastle vill kaupa Elanga - Memphis til Corinthians - Barca ætlar að fá Nico Williams - Casemiro og Eriksen mega fara - Kovacic íhugar framtíð sína...
   lau 17. febrúar 2024 09:30
Ívan Guðjón Baldursson
Pep tekur ábyrgð á brottför Cole Palmer
Mynd: EPA
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Mynd: Getty Images
Pep Guardiola svaraði spurningum á fréttamannafundi gærkvöldsins fyrir stórleik Manchester City á heimavelli gegn Chelsea sem fer fram í dag.

Þar var Guardiola meðal annars spurður út í sóknartengiliðinn öfluga Cole Palmer, sem er orðinn algjör lykilmaður í liði Chelsea eftir að hafa verið keyptur frá Man City fyrir rúmlega 40 milljónir punda á gluggadegi síðasta sumars.

Eftir félagsskiptin til Chelsea hefur Palmer skorað 10 úrvalsdeildarmörk og er byrjaður að spila fyrir enska landsliðið í þokkabót.

„Hann vildi fá fleiri mínútur heldur en á síðasta tímabili og þess vegna fór hann. Ég skil hann mjög vel. Hefði ég gefið honum sama mínútufjölda og ég gaf Phil Foden fyrir nokkrum árum þá væri hann ennþá hér. Þetta er á minni ábyrgð, þetta er mér að kenna," sagði Pep.

„En hvers vegna fékk hann ekki nógu margar mínútur? Vegna þess að Bernardo (Silva), Riyad (Mahrez) og Phil (Foden) voru að standa sig ótrúlega vel og ég valdi þá frekar í byrjunarliðið."

Palmer er 21 árs gamall og er uppalinn hjá Man City. Hann byrjaði tvo úrvalsdeildarleiki og kom inn af bekknum tólf sinnum er City vann Englandsmeistaratitilinn á síðustu leiktíð.

Hann kom svo við sögu í fyrstu leikjum City á nýju tímabili og stóð sig vel, þar sem hann skoraði gegn Arsenal í leiknum um Samfélagsskjöldinn áður en hann skoraði gegn Sevilla í evrópska ofurbikarnum.

„Við viljum alltaf halda ungum og efnilegum leikmönnum en það er eðlilegt að þeir vilji fara einhvert þar sem þeir fá meiri spiltíma. Þeir höndla bekkjarsetuna í eitt eða tvö tímabil en á þriðja tímabilinu þá heimta þeir að fá að spila. Það er eðlilegt. Við fengum tilboð frá toppfélagi eins og Chelsea og Cole vildi skipta yfir. Við stóðum ekki í vegi fyrir honum, svona hlutir gerast í fótboltaheiminum."

Palmer skoraði síðasta jöfnunarmarkið í 4-4 jafntefli Chelsea gegn City frá fyrr á tímabilinu, þegar liðin mættust á Stamford Bridge. Hann er bæði marka- og stoðsendingahæsti leikmaður Chelsea á tímabilinu með 12 mörk og 9 stoðsendingar í öllum keppnum

„Við vissum hvaða gæðum hann bjó yfir en hann vildi fara og okkur barst sanngjarnt tilboð. Man City er eitt af bestu fótboltaliðum heims og það er ekki auðvelt að finna pláss í byrjunarliðinu til að leyfa ungum stráki að spreyta sig."
Athugasemdir
banner
banner
banner