Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
banner
   mið 17. júlí 2024 20:14
Brynjar Ingi Erluson
Fótbolti.net bikarinn: Haukar, Kári og Tindastóll í 8-liða úrslit
Frosti Brynjólfsson hefur verið sjóðandi heitur með Haukum í sumar
Frosti Brynjólfsson hefur verið sjóðandi heitur með Haukum í sumar
Mynd: Fótbolti.net - Hulda Margrét
Tindastóll er komið í 8-liða úrslit
Tindastóll er komið í 8-liða úrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári vann nauman 1-0 sigur á Magna
Kári vann nauman 1-0 sigur á Magna
Mynd: Fótbolti.net - Sævar Geir Sigurjónsson
Haukar, Kári og Tindastóll eru öll komin áfram í 8-liða úrslit Fótbolta.net bikarsins.

Haukar unnu sannfærandi 4-1 sigur á Völsungi á BIRTU-vellinum á Ásvöllum.

Andri Már Harðarson, sem kom til Hauka á láni frá HK, skoraði fyrsta mark leiksins á 18. mínútu með laglegu skoti við vítateigsendann áður en Guðmundur Axel Hilmarsson bætti við öðru með hnitmiðuðu skoti úr teignum. Hann kom á dögunum frá Þrótti R.

Húsvíkingar sóttu í sig veðrið síðari hluta fyrri hálfleiks og náðu inn marki undir lokin er Gestur Aron Sörensson skoraði með flottu skoti í fjærhornið.

Völsungur var líklegt til að jafna metin í síðari hálfleiknum en allt hrundi eftir að Frosti Brynjólfsson gerði þriðja mark Hauka á 81. mínútu. Magnús Ingi Halldórsson gerði út um leikinn sjö mínútum síðar með flottu marki og lokatölur 4-1.

Tindastóll vann KH, 2-1, á Sauðárkróksvelli. Eftir spennandi en markalausan fyrri hálfleik voru það Stólarnir sem tóku forystuna á 63. mínútu.

Þremur mínútum áður hafði Kristinn Kári SIgurðarson, fyrirliði KH, fengið að líta rauða spjaldið fyrir að taka Arnar Ólafsson niður sem var að sleppa í gegn.

Jónas Aron Ólafsson gerði mark Tindastóls. Svend Emil Busk Friðriksson skallaði boltann í átt að teignum og á Jónas sem skoraði.

Gestirnir jöfnuðu tíu mínútum fyrir leikslok. Sverrir Hrafn Friðriksson braut á Helber Catano í teignum. Luis Solys fór á punktinn en Nikola Stoisavljevic varði frá honum. Nikola var kominn af línunni þegar vítið var tekið og því þurfti að endurtaka það og skoraði Solys í annarri tilraun.

Á 85. mínútu skaut Manuel Martínez heimamönnum í 8-liða úrslitin með laglegu marki. Hann fékk boltann rétt fyrir utan teiginn, tók einn mann á og negldi honum í fjærhornið. Óverjandi fyrir Víði Jökul Valdimarsson í markinu.

Kári lagði Magna að velli, 1-0, í Akraneshöllinni. Kolbeinn Tumi Sveinsson skoraði eina mark leiksins um tuttugu mínútum fyrir leikslok.

Hektor Bergmann Harðarsson stakk boltanum inn fyrir á Kolbein, sem náði að hrista af sér varnarmann áður en hann fór með boltann framhjá markverði Magna og lagði boltann í netið.

Dregið verður í 8-liða úrslit í hádeginu á föstudag.

Úrslit og markaskorarar:

Haukar 4 - 1 Völsungur
1-0 Andri Már Harðarson ('18 )
2-0 Guðmundur Axel Hilmarsson ('23 )
2-1 Gestur Aron Sörensson ('43 )
3-1 Frosti Brynjólfsson ('81 )
4-1 Magnús Ingi Halldórsson ('88 )
Lestu um leikinn

Tindastóll 2 - 1 KH
1-0 Jónas Aron Ólafsson ('63 )
1-1 Luis Carlos Cabrera Solys ('80 , víti)
2-1 Manuel Ferriol Martínez ('85 )
Rautt spjald: Kristinn Kári Sigurðarson, KH ('60) Lestu um leikinn

Kári 1 - 0 Magni
1-0 Kolbeinn Tumi Sveinsson ('72 )
Athugasemdir
banner
banner
banner