Japanska félagið Yokohama F Marinos hefur ákveðið að reka Harry Kewell úr þjálfarastólnum vegna afar slæms gengis í deildarkeppninni þar í landi.
Kewell hefur verið við stjórnvölinn hjá Yokohama í sjö mánuði og er rekinn þrátt fyrir gott gengi í Meistaradeild Asíu, þar sem liðið komst alla leið í úrslit en tapaði þar fyrir Al-Ain frá Sameinuðu arabísku furstadæmunum.
Yokohama er aðeins sjö stigum fyrir ofan fallsæti í japönsku deildinni sem stendur, og heilum 20 stigum á eftir toppliði Machida Zelvia. Það þykir óviðunandi og því er Kewell rekinn.
John Hutchinson, samlandi Kewell frá Ástralíu, tekur við Yokohama til bráðabirgða á meðan félagið finnur nýjan þjálfara.
Kewell er 45 ára gamall og hafði þjálfað Crawley Town, Notts County, Oldham Athletico og Barnet FC í neðri deildum enska boltans þegar Yokohama ákvað að ráða hann til sín.
Kewell er vel þekktur í fótboltaheiminum eftir feril sinn sem atvinnumaður í fótbolta, þar sem hann lék fyrir Leeds United, Liverpool og Galatasaray auk þess að hafa verið lykilmaður í ástralska landsliðinu.
Athugasemdir