Víkingar eru úr leik í forkeppni Meistaradeildarinnar. Gunnar Vatnhamar í baráttunni í leiknum í gær.
Víkingur féll á fyrstu hindrun í forkeppni Meistaradeildarinnar og draumur félagsins um að komast í riðlakeppni í Evrópu minnkaði til muna er liðið tapaði gegn Shamrock Rovers frá Írlandi í gær.
Breiðablik varð fyrst íslenskra karlaliða til að komast í riðlakeppni í Evrópu í fyrra, en þeir lögðu einmitt Shamrock Rovers í 1. umferð forkeppni Meistaradeildarinnar. Það var algjört lykilatriði fyrir Blika því þá þurftu þeir bara að vinna eitt einvígi til að komast í riðlakeppni Sambandsdeildarinnar.
Víkingar fara núna beint niður í forkeppni Sambandsdeildarinnar eftir að hafa tapað á fyrsta stigi Meistaradeildarinnar.
Í næstu umferð í forkeppni Sambandsdeildarinnar munu þeir annað hvort mæta Borac Banja Luka frá Bosníu eða Egnatia frá Albaníu. Tapliðið úr því einvígi fer niður í Sambandseildina og mætir Víkingi, en það ræðst í kvöld. Borac er með 1-0 forystu fyrir seinni leikinn.
Víkingur þarf að vinna þrjú einvígi í Sambandsdeildinni núna og það er ljóst að það verður mjög erfitt. Leiðin verður mun, mun erfiðari eftir tapið í gær en þó ekki ómöguleg.
Dregið verður í þriðju umferð forkeppni Sambandsdeildarinnar 22. júlí og 5. ágúst í fjórðu umferðina, sem er lokastigið fyrir riðlakeppnina.
Athugasemdir