
Erik Hamren, landsliðsþjálfari Íslands, er spenntur fyrir því að stýra íslenska landsliðinu á Wembley annað kvöld.
Hann stýrði Svíþjóð þar í 1-0 tapi í vináttulandsleik 2011 og mun annað kvöld stýra Íslandi í fyrsta landsleik okkar á Wembley.
Í fyrri leik liðanna í Þjóðadeildinni tapaði Ísland 1-0 á Laugardalsvelli þar sem Englendingar skoruðu úr vítaspyrnu seint í leiknum. Birkir Bjarnason fékk tækifæri til að jafna úr vítaspyrnu en brást bogalistinn.
„Það var sárt. Við spiluðum mjög vel og vörðumst vel gegn sterku ensku landsliði. Vítaspyrnan sem England fékk átti ekki að vera víti og svo fengum við víti sem við klúðruðum. Ég fann mjög til með leikmönnunum en ég var stoltur af þeim," sagði Hamren á fréttamannafundi í morgun.
„Það er nýr leikur núna og ný áskorun. Ég hlakka til leiksins. Það fær ekki mikið af fólki tækifæri til að spila hérna á Wembley, mekka fótboltans. Það er draumur, það var alla vega draumur fyrir mig þegar ég var krakki."
„Ég horfði á úrslitaleik FA-bikarsins á Wembley þegar ég var yngri. Það var ekki mikið um það í Svíþjóð á þessum tíma að fótbolti var sýndur í sjónvarpinu en það var alltaf hægt að sjá úrslitaleik FA-bikarsins. Maður dreymdi um að spila á Wembley og strákarnir okkar sem eru að koma hingað í fyrsta sinn líður örugglega eins með það," sagði Hamren sem stýrir Íslandi í síðasta sinn á morgun.
Það verða engir áhorfendur á leiknum á morgun vegna heimsfaraldursins, en Wembley rúmar 90 þúsund manns.
Athugasemdir