Að margir hafi hnyklað augabrúnirnar þegar tilkynnt var um að Francesco Guidolin hefði tekið við þjálfarastarfinu hjá Swansea er ekki ofsögum sagt. Snöggt innlit á Wikipedia-síðuna hans sýnir þjálfara sem hefur lifað og hrærst í hinni frægu þjálfarahringekju á Ítalíu í mörg ár, hafandi þjálfað alls 14 mismunandi lið á næstum 30 ára ferli sínum.
En eins og áhugamenn um ítalska boltann vita þá er það ekki vitnisburður um lélegan þjálfara eins og ferlar Marcello Lippi og Maurizio Sarri gefa til kynna. Báðir þjálfuðu þeir ótal minni lið áður en þeir fengu tækifærið hjá stóru liði, án þess endilega að neinn hafi á neinum tímapunkti efast um gæði þeirra.
Fyrstu velgengninni á ferlinum átti Guidolin eftir að fagna með Vicenza á miðjum tíunda áratugnum. Á fjórum árum leiddi hann félagið úr Serie-B upp í deild hinna bestu auk þess sem liðið vann ítalska bikarinn árið 1997. Sá sigur gaf þátttökurétt í UEFA Cup Winners Cup þar sem liðið komst í undanúrslitin en þurfti að lúta í lægra haldi fyrir lærisveinum Gianlucas Viallis hjá Chelsea 4-2 samanlagt eftir að hafa unnið fyrri leikinn.
Hann yfirgaf Vicenza árið 1998 til þess að taka við starfi hjá Udinese, félagi sem hann hefur frá þeim tíma haldið mikið upp á. Við tók mikið flökkutímabil þar sem hann þjálfaði Udinese, Bologna, Palermo og Genoa á sex ára tímabili. Alls staðar skilaði hann góðum árangri, sér í lagi hjá Palermo þar sem hann kom félaginu upp úr Serie-B árið 2004 og árið eftir tókst honum að koma liðinu í UEFA Cup. Það sem er athyglisvert við leikmannahóp Palermo árið 2005 er að í því voru heilir fimm leikmenn sem síðar áttu eftir að verða heimsmeistarar með Ítalíu, Luca Toni, Fabio Grosso, Simone Barone, Cristian Zaccardo og Andrea Barzagli. Liðið spilað fótbolta á þessum tíma sem var mikið fyrir augað enda var það skipað tveimur af skemmtilegustu leikstjórnendum Serie-A undanfarin ár, þeim Eugenio Corini og Franco Brienza. Hvorugur þeirra verður sakaður um mikla vinnusemi en báðir voru gæddir guðdómlegri útsjónarsemi og unaðslegum sendingafæti.
Guidolin yfirgaf Palermo árið 2005 til þess að taka við liði Genoa, en hann átti heldur betur eftir að koma við sögu aftur hjá Palermo í atburðarrás sem er lyginni líkust.
Dvöl hans hjá Genoa lauk eftir skamman tíma eftir að félagið var dæmt niður í Serie-C2 eftir veðmálasvindl. Hann tók þá við liði Monaco í frönsku deildinni en gekk ekki vel þar. Hann var svo ráðinn aftur þjálfari Palermo árið 2006 og þá hófst atburðarrásin fræga. Á seinni hluta tímabilsins 2006/2007 var hann rekinn frá félaginu eftir lakt gengi. Þremur vikum síðar var hann svo ráðinn aftur eftir að liðið hélt áfram að tapa án hans. Eftir endurkomu hans tók liðið við sér og endaði í fimmta sæti í deildinni sem er besti árangur liðsins í efstu deild frá upphafi. Hann sagði þó upp eftir að tímabilinu lauk og var lengi orðaður við þjálfarastöðuna hjá QPR á Englandi. Það fór þó ekki svo heldur var hann aftur ráðinn þjálfari Palermo haustið 2007. Vorið 2008 endurtók sagan sig þó og var hann rekinn frá Palermo. Var það í þriðja skiptið sem hann yfirgaf félagið á tveimur árum og í fjórða skiptið á fjórum árum.
Þá tók hann við Parma í skamma stund áður en hann hélt aftur til Udinese. Þar náði hann undraverðum árangri sem skaut honum aftur upp á stjörnuhimininn. Hann kom félaginu í undakeppni Meistaradeildarinnar næstu tvö árin með því að enda í fjórða og þriðja sæti í deildinni, og það með mun minna fjármagn en félögin í kringum Udinese á stigatöflunni. Hvernig fagnar maður eins og Francesco Guidolin Meistaradeildarsæti? Nú auðvitað með því að dansa við „Danza Kaduro”.
Árið 2014 hætti hann sem þjálfari liðsins og tók við stöðu sem tæknilegur ráðgjafi Pozzo-fjölskyldunnar sem á knattspyrnufélögin Udinese, Watford og Granada FC.
Guidolin er ekki þekktur fyrir eitt sérstakt leikkerfi heldur hefur ferill hans alltaf byggst á því að vinna úr þeim efnivið sem hann hefur hverju sinni. Á sínum yngri árum var hann af Arrigo Sacchi-skólanum og einblíndi hann á 4-4-2. En þegar hann tók við Udinese í fyrsta skiptið, þar sem löng hefð hafði verið fyrir þriggja manna varnarlínu, neyddist hann til að brjóta brodd af oflæti sínu og virða hina gömlu hefð.
Seinni dvöl hans hjá Udinese notaðist hann einnig við þriggja manna varnarlínu að meginstefnu til. Þekktastur er hann þó fyrir að hafa gert Alexis Sanchez að þeirri stjörnu sem hann er í dag, með því að nota hann sem sóknarsinnaðan miðjumann í stað þess að nota hann á kantinum líkt og flestir aðrir þjálfarar hefðu freistast til að gera. Sanchez var óstöðvandi á þessum tíma og var að lokum seldur til Barcelona. Aðrir leikmenn sem hann á mikinn heiður af að hafa þróað eru Samir Handanovic, Edison Cavani og Juan Cuadrado.
Guidolin ætti, í ljósi stöðu sinni sem tæknilegur ráðgjafi Pozzo-fjölskyldunnar, að hafa gríðarlega þekkingu á leikmannamarkaðinum víða um Evrópu. Udinese er þekkt fyrir gott tengslanet sitt í Austur-Evrópu og hefur félagið verið rekið með sama rekstrarmódelinu í mörg ár: Ungir leikmenn koma á lítinn pening og eru seldir nokkrum árum síðar með miklum hagnaði. Það kæmi því ekki á óvart ef Guidolin reynir að hafa áhrif á kaupstefnu Swansea og hver veit nema að hann lumi á einhverjum óslípuðum demöntum einhvers staðar í Evrópsku deildunum.
Margir spyrja sig eflaust hvers vegna hann hafi aldrei tekið við einu af stóru félögunum á Ítalíu. Svo virðist sem draumur hans hafi alltaf verið að þjálfa AC Milan en svo fór ekki. Svo mikilvægur var sá draumur fyrir honum að sagan segir að hann hafi gerst hávær stuðningsmaður þáverandi stjórnmálaflokk Silvios Berlusconis Forza Italia á tíunda áragugnum því eins og þekkt er var Berlusconi forseti félagsins á þeim tíma. En allt kom fyrir ekki og draumurinn rættist aldrei.
Guidolin er einnig þekktur fyrir áhuga sinn á hjólreiðum. Flest ítölsk félög eyða undirbúningstímabilinu í Ölpunum og nýtir Guidolin frítíma sinn þá til þess að hjóla upp og niður alla helstu fjallstindana, meðal annars Monte Zoncolan. Fjallstindurinn er frægur hluti af hjólreiðakeppninni Giro d’Italia. Önnur saga segir að annar draumur hans í æsku hafi verið að keppa í Tour de France, annar draumur sem aldrei varð að veruleika.
Ráðning Guidolin er fyrir margar sakir sérstök en það er með engu móti óhugsandi að hann geti náð árangri með Swansea. Hann þekkir það frá Udinese að taka við liði þar sem krafa er gerð um að spila fallegan fótbolta með efnilegum leikmönnum líkt og Swansea-liðið var þegar það komst fyrst upp í Premier League. Hvort leikmenn Swansea taki honum með opnum örmum og nái að tengja við þennan þjálfara með afar sérstaka reynslu er þó öllu óvissara.
En líkt og ungir leikmenn sem blómstrað hafa undir hans stjórn, getur ekki verið að Guidolin sjálfur sé óslípaður demantur?
Athugasemdir