Arsenal tekur á móti Paris Saint-Germain í undanúrslitaleik Meistaradeildarinnar þriðjudaginn 29. apríl. Seinni leikurinn fer fram á Parc des Princes miðvikudaginn 7. maí.
Mikel Arteta þjálfari býst við mjög erfiðum slag gegn PSG þrátt fyrir að liðin hafi mæst einu sinni fyrr á tímabilinu. Arsenal hafði þar betur með 2-0 sigri á heimavelli.
Arsenal sló Real Madrid út í 8-liða úrslitum Meistaradeildarinnar á meðan PSG hafði betur gegn Aston Villa eftir gríðarlega spennandi seinni leik á Villa Park.
„Ég horfði á leikinn hjá Aston Villa gegn PSG og þetta var klikkaður leikur. Ég þekki Luis Enrique (þjálfara PSG) mjög vel og ég veit að þetta verður gríðarlega erfiður leikur fyrir okkur. Þeir eru búnir að bæta sig mikið frá því þegar við mættum þeim síðast og sigurgangan þeirra er ótrúleg," sagði Arteta og tóku Bukayo Saka og Declan Rice, lykilleikmenn Arsenal, undir.
„Þetta verður öðruvísi leikur, við munum mæta liði sem er með miklu meira sjálfstraust heldur en síðast. Þetta verður virkilega spennandi slagur," sagði Saka.
„Þeir voru erfiðir þegar við mættum þeim síðast en þeir eru orðnir enn sterkari núna," sagði Rice.
Arsenal er að glíma við einhver meiðslavandræði fyrir leikinn en Kai Havertz og Riccardo Calafiori eru ekki langt frá því að snúa aftur.
„Kai snýr aftur fyrr en við héldum, það er erfitt að segja til um hvenær það gerist nákvæmlega en það er stutt í það. Riccardo verður ekki klár í slaginn gegn Ipswich en ætti að ná leikjunum gegn PSG."
Arteta nefndi einnig að hann hefði frekar viljað spila fyrri leikinn gegn PSG á útivelli. Hann telur það gefa liðum forskot að spila seinni leikina á heimavelli.
Athugasemdir