Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   fim 18. ágúst 2022 23:41
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Horfir í landsliðið eftir erfið meiðsli - „Vil ekki fara út bara til að fara út"
Anna Rakel Pétursdóttir verður 24 ára í næstu viku.
Anna Rakel Pétursdóttir verður 24 ára í næstu viku.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Cyera skoraði fyrra mark Vals í dag.
Cyera skoraði fyrra mark Vals í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ég er bara sátt með það og spila bara þar sem þjálfarinn lætur mig spila
Ég er bara sátt með það og spila bara þar sem þjálfarinn lætur mig spila
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það verður að nýta þessa sólargeisla sem eru sjaldséðir á Íslandi
Það verður að nýta þessa sólargeisla sem eru sjaldséðir á Íslandi
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Akureyringarnir Rakel og Arna Sif
Akureyringarnir Rakel og Arna Sif
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fær tækifæri til að fara upp kantinn
Fær tækifæri til að fara upp kantinn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2021 eftir tvö tímabil í Svíþjóð.
Rakel gekk í raðir Vals fyrir tímabilið 2021 eftir tvö tímabil í Svíþjóð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Rakel á að baki sjö landsleiki, sá síðasti kom í mars árið 2020.
Rakel á að baki sjö landsleiki, sá síðasti kom í mars árið 2020.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Það er búið að lækka um nokkrar gráður en er samt talsvert heitara hér en á Íslandi," sagði Anna Rakel Pétursdóttir við Fótbolta.net í kvöld.

Rakel, eins og hún er oftast kölluð, er stödd í Slóveníu ásamt liði Vals sem tekur þátt í forkeppni Meistaradeildarinnar. Fyrr í dag tryggði Valur sér sæti í úrslitaleik 1. unmferðar með sigri á armensku meisturunum í FC Hayasa. Lokatölur urðu 2-0 fyrir Val og voru það þær Cyera Hintzen og Maria Speckmaier sem skoruðu mörk Vals í leiknum.

Það er heitt eins og Rakel kemur inná í Slóveníu og því fór leikurinn fram snemma í morgun. Úrslitaleikurinn, sem verður gegn írska liðinu Shelbourne, mun fara fram seinni partinn á sunnudag.

Lögðu upp með að bögga sig ekki á ytri aðstæðum
„Þetta var krefjandi leikur í krefjandi aðstæðum eins og Mist kom inná í gær. Völlurinn var ekkert eins og við erum vanar á Íslandi og mjög heitt. Eina sem skipti máli var að vinna þennan leik. Við í rauninni lögðum upp með það að reyna bögga okkur ekki á ytri aðstæðum og ná í þennan sigur."

„Við náðum ekki að ná að halda í boltann eins og við erum vanar að gera, var svolítið mikið fram og til baka. Aðstæðurnar spiluðu aðeins inn í en við hefðum mátt vera aðeins rólegri og þolinmóðari á boltann. Það skipti svo sem ekki máli svo lengi sem við vinnum leikinn, við vorum þannig séð ekkert að leggja upp með að spila fallegan fótbolta, fórum inn í þetta til að vinna leikinn."


„Dómararnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir"
Valur komst frekar snemma í 1-0 en annað markið kom ekki fyrr en undir blálokin. Var eitthvað stress að vera ekki búnar að klára leikinn fyrr?

„Nei, í rauninni ekki. Við héldum bara ró okkur en ég myndi samt alveg segja að það hafi verið smá léttir að setja markið þarna í lokin en annars ekkert stress."

Það vakti athygli hversu mikið leikurinn var stopp í fyrri hálfleiknum sérstaklega. „Dómarinn var ekkert frábær ef ég má leyfa mér að segja það. Maður þurfti alveg að minna sig á það að láta það ekki fara í taugarnar á sér. Dómararnir eru jafn misjafnir og þeir eru margir. Það voru atriði sem okkur fannst ranglega dæmd en þetta voru engin stór atriði. Við létum það ekkert bögga ökkur."

Dældu í sig vatni og söltum í hitanum
Það var tæplega 30 stiga hita á meðan leik stóð, hvernig var að spila í þessum hita?

„Það var alveg erfitt, það var mjög heitt og sem betur fer var vatnspása. Við nýttum líka tækifærið þegar leikurinn var stopp og tækifæri gafst til að fá okkur vatnssopa og sölt og svona, dældum í okkur söltum. Maður er í því alla ferðina að passa upp á að maður innbyrði nægan vökva og sölt því það er líka heitt á meðan við æfum."

Rakel segir að eftir því sem hún best viti hafi allar í liðinu komist þokkalega heilar út úr leiknum og ættu að vera tilbúnar í slaginn á sunnudaginn gegn Shelbourne. En fylgdust Valskonur með gangi mála í leik Shelbourne og Pomurje?

„Þjálfararnir fóru á leikinn og við leikmenn reyndum aðeins að fylgjast með. Þetta er held ég hörkulið sem við erum að fara mæta, þær litu vel út og þetta verður hörkuleikur."

Reyndi að harka sig í gegnum meiðsli í marga mánuði
Rakel sneri í vetur til baka eftir að hafa misst úr langstærstan hluta úr síðasta tímabili vegna mjaðmameiðsla.

„Tilfiningin að vera komin aftur er mjög góð og mikill léttir aðallega. Árið í fyrra var mjög erfitt, erfitt að koma inn í nýtt lið og meiðast strax en reyna að harka það af sér í 4-5 mánuði áður en ég fór loksins í aðgerð. Mikill léttir og sem betur fer hefur ekkert bakslag komið þannig mér líður bara mjög vel."

Spilamennskan sýni það sem Rakel lagði á sig
Rakel hefur átt gott tímabil með Val og leyst stöðu vinstri bakvarðar.

„Ég er mjög sátt með mína spilamennsku, mjög ánægð með hvernig ég hef komið úr þessum meiðslum. Það sýnir kannski það sem maður lagði á sig í endurkomunni."

„Lykillinn að endurkomunni var kannski blanda af þolinmæði og dugnaði og svo fékk ég mikla hjálp frá teyminu hjá Val. Það voru hundleiðinlegar æfingar sem maður þurfti að gera en maður bara gerir þær til að koma til baka."


Gerði það síðasta tímabil bærilegra að vel gekk hjá Val í fyrra?

„Auðvitað var geggjað að vinna deildina, sama hvort ég sé að spila eða ekki þá vil ég að liðinu gangi vel. Það var mikil gleðistund þegar titilinn var í höfn. Ég náði að spila tvo leiki í byrjun móts og skoraði eitt mark. Ég var mjög stolt af liðinu að ná þessum árangri."

Spilar þar sem þjálfarinn segir henni að spila
Í vetur, þegar þú ert að koma til baka, var þá orðið ljóst hvaða stöðu þú værir að fara spila í sumar?

„Já og nei, það var smá rótering. Þessa tvo leiki sem ég spilaði 2021 spilaði ég í 'tíunni' og ég átti í raun þannig séð ekkert samtal við Pétur hvar hann myndi spila mér í sumar. Svo bara endaði það þannig að ég fór í vinstri bakvörðinn. Ég er bara sátt með það og spila bara þar sem þjálfarinn lætur mig spila."

Rakel hefur áður spilað í vinstri bakverðinum. „Ég spilaði í vængbakverði hjá Þór/KA, var fengin út til Svíþjóðar sem vinstri bakvörður en endaði á því að spila nánast allar aðrar stöður. Er ekki fínt að vera fjölhæfur leikmaður?"

Bjó með bakverðinum sem spilaði í fyrra
Á síðasta tímabili lék Mary Alice í vinstri bakverðinum og átti gott tímabil. „Hún er frábær leikmaður og við söknum hennar mikið. Við bjuggum saman hluta af árinu í fyrra og náðum vel saman. Það er bara gamla góða klisjan, það kemur maður í manns stað."

Kitlar ekkert að vera framar á vellinum?

„Já og nei. Ég kannski hugsa ekkert mikið út í það. Við spilum alveg þannig sóknarsinnaðan leik að ég hef tækifæri til að koma upp kantinn, senda fyrir og er búin að skora tvö mörk í sumar."

Markmiðið að fara aftur út
Rakel lék erlendis tímabilin 2019 og 2020. Er stefnan sett á að fara aftur út?

„Það er klárlega markmiðið að fara aftur út en ég er heldur ekkert að flýta mér út þannig séð. Ég vil bara bíða og sjá hvort rétta tækifærið kemur, vil ekki fara út bara til að fara út. Ég renn út á samningi í haust, ætla bíða og sjá hvort það komi eitthvað upp og tek bara stöðuna eftir tímabilið."

Varðandi samningsmálin, er Valur byrjað að ræða eitthvað við þig varðandi nýjan samning eða slíkt?

„Það fer bara allt í gegnum umboðsmanninn, ég kem lítið að þeim málum."

Vonar að spilamennskan með Val skili landsliðssæti
Eftir EM tilkynnti vinstri bakvörðurinn Hallbera Guðný Gísladóttir að skórnir væru farnir upp í hillu. Hvernig horfir landsliðið við þér í dag? Ertu með væntingar um að vera í næstu hópum?

„Það er klárlega markmiðið að komast inn í þenann hóp, hópurinn er mjög sterkur og samkeppnin mikil. Markmiðið mitt er bara að halda áfram að spila vel með Val og vona að það skili mér sæti í hópnum fyrr en síðar."

Stimplað sig inn sem besti varnarmaður deildarinnar
Í liði Vals, sem bakvörður, spilar hún vinstra megin við tvo miðverði sem eru í háum gæðaflokki. Hvernig er að spila við hlið Örnu Sif og Mist?

„Það veitir manni mikið öryggi, geggjað að spila með þeim og gaman að segja frá því að Arna Sif þjálfaði mig þegar ég var yngri," sagði Rakel og hló.

„Þær eru báðar frábærar og það eru fleiri í þessu liði sem maður getur lært helling af, leikmenn sem eru með mikla reynslu og leikmenn sem maður lítur klárlega upp til."

Rakel og Arna Sif eru báðar frá Akureyri, Arna kom til Vals fyrir tímabilið frá Þór/KA. Hvernig finnst þér Arna hafa komið inn í Valsliðið?

„Mjög vel, hún er gjörsamlega búin að stimpla sig inn sem langbesti miðvörður deildarinnar - engin spurning. Hún á skilið að vera í landsliðinu."

Aftur að Slóveníu og verkefninu þar. Er einhver dagskrá framundan eða eru bara rólegheit fram að leik?

„Ég held að við ætlum að fara í einhverja bæjarferð á morgun. Annars eru þetta bara æfingar, endurheimt, hvíld og kannski kíkt smá í sólina. Það verður að nýta þessa sólargeisla sem eru sjaldséðir á Íslandi," sagði Rakel að lokum.

Sjá einnig:
Hver tekur við af Hallberu? - Það eru spennandi kostir í stöðunni
Athugasemdir
banner
banner
banner