Liverpool hafnaði tilboði í Nunez og hefur áhuga á Tzimas - Chelsea hefur sett verðmiða á Nkunku - Rashford vill fara til Barcelona
   lau 18. nóvember 2023 18:44
Elvar Geir Magnússon
Lissabon
Ógjörningur að spá hvernig byrjunarlið Íslands verður
Frá æfingu Íslands í Lissabon í dag.
Frá æfingu Íslands í Lissabon í dag.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Allir 24 tóku þátt í æfingu dagsins.
Allir 24 tóku þátt í æfingu dagsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Íslenska landsliðið æfði á Estádio José Alvalade síðdegis í dag, heimavelli Sporting Lissabon. Þar mun Portúgal taka á móti Íslandi annað kvöld í lokaleik liðanna í riðlinum í undankeppni EM.

Andri Fannar Baldursson og Daníel Leó Grétarsson voru kallaðir inn í hópinn eftir leikinn gegn Slóvakíu en Hákon Arnar Haraldsson er farinn heim vegna meiðsla.

Allir 24 leikmennirnir sem nú eru í hópnum tóku þátt í æfingunni í dag, allavega fyrsta stundarfjórðunginn en degi fyrir leik fá fjölmiðlar ekki að fylgjast með hvað gerist eftir það.

Age Hareide landsliðsþjálfari var spurður út í stöðuna á leikmannahópnum á fréttamannafundi.

„Það eru einhver smávægileg meiðsli og það verður ákveðið á morgun hvort þeir leikmenn séu nægilega heilir til að vera í hópnum," sagði Hareide en nefndi engin nöfn.

Stutt er síðan liðið spilaði í Slóvakíu en í þeim leik fór Arnór Ingvi Traustason meiddur af velli í fyrri hálfleik. Hann tók þátt í æfingunni í dag, allavega að hluta til. Arnór stífnaði upp í mjöðminni í leiknum í Bratislava.

„Mig langaði mjög mikið að reyna og halda áfram, sérstaklega eftir að við komumst yfir, en það bara gekk ekki," sagði Arnór eftir leikinn.

Nánast ógjörningur er að spá fyrir um byrjunarlið Íslands en við getum gengið að því vísu að uppleggið verði varnarsinnað, gegn gríðarlega sterku liði Porúgals.

Leikurinn á morgun hefur ekki mikið þýðingargildi. Portúgal er fyrir löngu búið að tryggja sér sigur í riðlinum en Ísland er að búa sig undir að fara í umspil í mars. Það má því segja að leikurinn á morgun sé nánast æfingaleikur.
Athugasemdir
banner
banner
banner