
Argentína og Frakkland mætast í stærsta leik fótboltaheimsins sem er aðeins leikinn á fjögurra ára fresti.
Lestu um leikinn: Argentína 7 - 5 Frakkland
Úrslitaleikur HM hefst klukkan 15:00 í dag og hafa byrjunarliðin verið kynnt til leiks.
Angel Di Maria, sem var tæpur fyrir úrslitaleikinn, byrjar í fremstu víglínu ásamt Lionel Messi og Julian Alvarez sem hafa náð virkilega vel saman á heimsmeistaramótinu í ár.
Di Maria er eina breytingin á byrjunarliði Argentínu sem lagði Króatíu þægilega að velli í undanúrslitum. Hann kemur inn í byrjunarliðið fyrir Leandro Paredes.
Alexis Mac Allister, Enzo Fernandez og Rodrigo De Paul verma miðjuna í fjarveru Paredes og helst varnarlínan óbreytt.
Lionel Scaloni virðist halda sig við 4-4-2 leikkerfið í dag en gæti hæglega breytt yfir í 4-3-3 á meðan leikurinn er í gangi. Didier Deschamps, landsliðsþjálfari Frakka, heldur áfram að nota sitt 4-3-3 kerfi sem skilaði síðasta heimsmeistaratitli.
Deschamps gerir tvær breytingar á liðinu sem lagið Marokkó að velli í undanúrslitum. Adrien Rabiot kemur inn á miðjuna fyrir Youssouf Fofana og Dayot Upamecano kemur inn í varnarlínuna fyrir Ibrahima Konate sem er að glíma við væg veikindi.
Olivier Giroud, Kylian Mbappe og Ousmane Dembele halda byrjunarliðssætum sínum í fremstu víglínu með Antoine Griezmann fyrir aftan.
Báðar þjóðir munu freista þess að vinna heimsmeistaratitilinn í þriðja sinn og getur Frakkland orðið þriðja þjóð sögunnar til að verja HM titilinn sinn. Það gerðist síðast þegar Brasilía vann HM 1962.
Argentína: Martinez, Molina, Romero, Otamendi, Tagliafico, De Paul, Fernandez, Mac Allister, Messi, Di Maria, Alvarez
Varamenn: Armani, Foyth, Pezzella, Rulli, Palacios, Correa, Almada, Gomez, Dybala, Jeremias, Lisandro Martinez, Paredes
Frakkland: Lloris, Kounde, Varane, Upamecano, Hernandez, Griezmann, Tchouameni, Rabiot, Dembele, Mbappe, Giroud
Varamenn: Pavard, Disasi, Guendouzi, Muani, Veretout, Mandanda, Saliba, Coman, Areola, Camavinga, Thuram, Konate, Fofana