Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 19. janúar 2021 11:58
Magnús Már Einarsson
Alexandra til Frankfurt (Staðfest)
Alexandra Jóhannsdóttir.
Alexandra Jóhannsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Þýska félagið Frankfurt hefur staðfest að miðjumaðurinn Alexandra Jóhannsdóttir er komin til félagsins frá Breiðabliki. Alexandra hefur skrifað undir samning sem gildir til sumarsins 2023 en Frankfurt keypti hana frá Breiðabliki.

Alexandra segir í viðtali á heimasíðu Frankfurt að hún hafi rætt við Söru Björk Gunnarsdóttur um þýsku deildina og að hún hafi verið ánægð með það sem kom fram í spjalli við iko Arnautis, þjálfara Frankfurt.

„Mér hefur verið vel tekið í Frankfurt af nýjum liðsfélögum og þjálfarateyminu og ég hlakka til að takast á við áskorunina að spila í sterkri deild í Þýskalandi," segir Alexandra.

Hin tvítuga Alexandra er uppalin hjá Haukum en hún hefur spilað með Breiðabliki undanfarin þrjú ár.

Alexandra hefur skorað 28 mörk í 67 leikjum í Pepsi Max-deildinni en hún hefur einnig skorað tvö mörk í tíu leikjum með íslenska A-landsliðinu.

Frankfurt er í 6. sæti af tólf liðum í þýsku Bundelsligunni í augnablikinu en keppni hefst aftur þar í febrúar eftir vetrarfrí.

Alexandra er þriðji leikmaðurinn úr Íslandsmeistaraliði Breiðabliks sem fer í þýsku Bundesliguna í vetur. Karólína Lea Vilhjálmsdóttir fór á dögunum til toppliðs Bayern Munchen og Sveindís Jane Jónsdóttir, sem var á láni frá Keflavík, fór til Wolfsburg.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór til Le Havre undir lok síðasta tímabils og að auki hefur markvörðurinn Sonný Lára Þráinsdóttir ákveðið að leggja hanskana á hilluna.

Athugasemdir
banner
banner