„Ánægður með trúna sem við höfðum á þetta, við ætluðum ekki útaf vellinum, sama hvað, nema með þessi þrjú stig,'' sagði Páll Viðar Gíslason eftir dramatískan 2-1 sigur á Grindavík í fyrsta leik Lengjudeildar karla.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 1 Grindavík
„Þetta var mjög torsótt, fengum á okkur jöfnunarmark strax eftir að við komumst yfir og mér fannst það í ódýrari kantinum. Svo herjuðu þeir á okkur í föstum leikatriðum, með seinni boltana og við vorum heppnir og hentum okkur fyrir.''
Páll hélt áfram: „Svo fannst mér bara ekki spurning hvort liðið vildi þessi þrjú stig. Fannst eins og á tímabili að Grindavík, eðlilega, virtu stigið. En okkur langaði meira og menn voru tilbúnir til þess að gera meira til þess að sækja þetta sæta sigurmark, það er fyrst og fremst það sem ég er ánægður með svona strax eftir leik.''
Mikið hefur verið ritað og rætt um það að Jónas Björgvin Sigurbergsson, Þórsari í húð og hár, yrði kannski ekki með í sumar en Páll Viðar blés á það.
„Við stöndum saman og það vita allir að Jónas er góður í fótbolta, við klárlega þurfum á honum að halda eins og öllum öðrum Þórsurum. Hann stóð sig vel í dag''
Athugasemdir