Rabiot nálgast Man Utd - Mount til sölu - Branthwaite fær stórbættan samning - Kante hefur náð samkomulagi við West Ham
   mið 19. júní 2024 15:32
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Viðtal
Tímabilinu líklega lokið hjá Alberti Hafsteins - „Líkaminn sagði bara stopp"
Ekkert spilað að undanförnu.
Ekkert spilað að undanförnu.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert í leiknum gegn Val í byrjun móts.
Albert í leiknum gegn Val í byrjun móts.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Sneri aftur til ÍA síðasta sumar.
Sneri aftur til ÍA síðasta sumar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Albert Hafsteinsson, miðjumaður ÍA, hefur ekkert spilað með liðinu frá því í byrjun móts vegna meiðsla. Illa hefur gengið að finna út hvað sé að hrjá kappann en eftir greiningu hjá bæklunarlækni kom í ljós að Albert þarf að fara í aðgerð á mjöðm.

Hann verður alveg frá æfingum í allavega sex vikur og þá er eftir vinna til að koma sér aftur í form. Skagamaðurinn ræddi við Fótbolta.net í dag.

„Ég er að fara í aðgerð á föstudaginn á mjöðm. Það þarf að pússa af mjaðmakúlunni. Ég er búinn að vera með verk í nára síðan að þriðji leikurinn á tímabilinu kláraðist. Ég tók hvíld eftir það og var ekkert að skána, var bara að versna ef eitthvað er. Það er vont að labba," sagði Albert.

„Það er eitthvað skrítið við það þannig ég fór í myndatöku og svo til bæklunarlæknis. Hann sagði að það þyrfti að pússa þetta af ef ég ætlaði mér að spila eitthvað meira. Það var ekkert atvik sem kom upp eða þannig. Síðustu ár hef ég verið smá verk í nára og hef verið að missa af 1-2 leikjum, aldrei náð mér 100% almennilega í gang út af þessu, þurft að álagsstýra."

„Ég spilaði meiddur með ÍA seinni hluta síðasta tímabils, er eiginlega bara að spila leikina. Eftir tímabilið fór ég í kviðsslits aðgerð, það var talið að það væri vandamálið og ég var með kviðslit. Ég náði mér góðum, næ að æfa í jan-apríl og er kominn í toppstand. Svo er eins og ég lendi á einhverjum vegg, fæ aftur verk í nárann. Líkaminn sagði bara stopp."

„Það er vont að teygja sig fram og labba. Þó að ég hafi hvílt frá 3. umferð og nánast út landsleikjahlé þá skánaði þetta ekki neitt, versnaði ef eitthvað er."


Hvernig er að vita að þetta er vonandi lausnin?

„Ég er auðvitað sáttur með það, en á sama tíma hundfúll að tímabilið sé líklega búið. Það er talað um að næstu sex vikur eftir aðgerð þá megi maður í raun ekkert gera, ekkert skokk eða neitt högg á mjöðmina. Þá er kominn ágúst og ég ekkert búinn að spila síðan í apríl, í allra besta falli gæti ég náð einhverjum leikjum í lok tímabils, en það væri bara bónus ef það gerist."

„Ég er auðvitað sáttur að það sé búið að finna út hvað þetta sé. Ég var orðinn pirraður þó að ég væri ekki einu sinni í íþróttum, ég gat varla gengið lengur."


Hugsaðirðu á einhverjum tímapunkti að þú værir ekki að fara spila fótbolta aftur?

„Ef bæklunarlæknirinn hefði ekki komið með nein svör þá var ég búinn að íhuga hvað myndi gerast, ég var búinn að prófa allt og leita allra mögulegra lausna. Fyrst að ég fékk þessi svör er maður smá jákvæður en á sama tíma pínu fúll að tímabilið sé búið," sagði Albert.

Albert er 28 ára miðjumaður sem uppalinn er hjá ÍA og hefur einnig leikið með Kára og Fram á sínum ferli. Hann var í þrjú og hálft tímabil hjá Fram en sneri aftur um mitt síðasta sumar. ÍA vann í gær sinn fyrsta deildarsigur á KR síðan 2016 en Albert var einmitt í Skagaliðinu þegar Garðar Gunnlaugsson skoraði sigurmarkið í Vesturbænum árið 2016.
Athugasemdir
banner
banner