
„Það er góð stemning í hópnum og við erum með fiðring í maganum til að ná okkar markmiðum. Ég upplifi hópinn þannig að við erum hungruð í að spila leikinn á morgun," segir Freyr Alexandersson, þjálfari kvennalandsliðsins, um leikinn gegn Skotum á morgun.
Ísland hefur tryggt sér sæti á EM en liðið vill enda riðilinn án þess að fá mark á sig og enda með fullt hús stiag.
„Það er stórt fyrir okkur að vinna riðilinn. Við erum nálægt því að fara upp um styrkleikaflokk fyrir lokamótið á næsta ári. Hvert einasta mark sem við skorum skiptir máli," sagði Freyr en er hann búinn að reikna út möguleikana á að fara upp um styrkleikaflokk?
„Ég er ekkert geggjaður í stærðfræði en ég sé að það munar einu stigi á okkur og Sviss. Þegar við erum að tala um 1740 stig og það munar einu stigi þá veit ég að hvert einasta smáatriði telur. Það eru spjöld sem telja, mörk og sigrarnir. Sigur á Skotum gefur okkur vel í vasann."
Rúmlega 6000 áhorfendur mættu á Laugardalsvöll á föstudag og sáu Ísland vinna Slóveníu 4-0.
„Það var stemning í stúkunni allan leikinn og það skiptir máli. Ég held að fólki finnist mjög gaman að mæta á leiki hjá okkur og ég á von á fullt af fólki. Tíminn er ekki stórkostlegur en við höfum fengið fregnir af því að fyrirtæki séu að senda starfsfólk á leikinn. Ég held að þetta verði skemmtileg stund á morgun þar sem við náum okkur lokamarkmiðum," sagði Freyr.
Áhorfendametið hjá kvennalandsliðinu er 6647 áhorfendur á leik gegn Úkraínu í umspili um sæti á EM árið 2012. Freyr vonast til að sjá það met slegið á morgun.
„Ég myndi staðfesta það ef leiktíminn væri betri en ég er samt vongóður um að það takist," sagði Freyr að lokum.
Hér að ofan má sjá viðtalið í heild sinni.
Stöðutaflan

L | U | J | T | ms: | mf: | mun | Stig | ||
---|---|---|---|---|---|---|---|---|---|
0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 | 0 |
Athugasemdir