„Pirrandi hvernig við köstuðum þessu frá okkur," sagði Arnór Ingvi Traustason eftir tap Íslands gegn Wales í Þjóðadeildinni í kvöld.
Lestu um leikinn: Wales 4 - 1 Ísland
„Fyrstu 25-30 mínúturnar komust þeir hvorki lönd né strönd og við vorum með þá. Svo koma mistök sem maður getur ekki gert á svona háu stigi því þá er manni refsað."
Orri Steinn Óskarsson þurfti að fara af velli vegna meiðsla um miðjan fyrri hálfleikinn en hann átti stóran þátt í marki íslenska liðsins.
„Hann er frábær leikmaður og stór partur af okkar liði. Maður getur ekki kastað sér á bakvið það, við missum Jóa líka í hálfleik, það kemur maður í manns stað," sagði Arnór Ingvi.
Ísland mun spila í umspili um að halda sæti sínu í B deild Þjóðadeildarinnar eftir tapið í kvöld.
„Fyrir leik vorum við með hugmyndir um það að fara í A umspilið og eiga möguleika á því að vera í A deildinni, við höfum sýnt það í mörgum leikjum þó svo við höfum sýnt slæm úrslit líka. Það þýðir ekki að dvelja við það núna. Það er bara að taka B umspilið og halda okkur uppi," sagði Arnór Ingvi.