mið 20. janúar 2021 11:37
Elvar Geir Magnússon
Richards: Nú þarf Shaw að sýna stöðugleika
Luke Shaw, bakvörður Manchester United.
Luke Shaw, bakvörður Manchester United.
Mynd: Getty Images
Micah Richards, sérfræðingur BBC og Sky Sports, segir að Luke Shaw bakvörður Manchester United þurfi nú að fara að sýna stöðugleika fyrir liðið. Shaw átti frábæran leik í markalausa jafnteflinu gegn Liverpool á sunnudag.

„Nú er kominn tími til að hann sýni öllum að hann eigi að vera áfram hjá Manchester United. Ég er ekki að segja að hann þurfi að vera ótrúlegur í hvert sinn sem hann fer í treyjuna. Hann þarf bara að sýna góðan og stöðugan leik og komast aftur í myndina hjá enska landsliðinu," segir Richards.

Manchester United mætir Fulham í kvöld í ensku úrvalsdeildinni.

„Þetta verður allt önnur áskorun fyrir hann en hann þarf að samt að sýna það sama og hann gerði á Anfield. Það eru nokkrar ástæður fyrir því að hann hefur ekki náð þeim hæðum hjá United sem hann getur náð en nú er frábært tækifæri til að laga stöðuna."

Ole Gunnar Solskjær, stjóri Manchester United, er ánægður með frammistöðu Shaw að undanförnu.

„Luke býr yfir gífurlegum gæðum. Andlega er hann mjög öflugur að þessu sinni. Hann varð pabbi og er líkamlega á góðum stað núna. Þegar þú ert með hæfileikaríkan leikmann eins og Luke þá færðu góða frammistöðu frá honum þegar hann er á góðum stað líkamlega og andlega," segir Solskjær.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner