Valur vann glæsilegan 4-0 útisigur gegn Vllaznia í Albaníu á fimmtudaginn. Börkur Edvardsson formaður Vals var á línunni í beinni frá Tirana í útvarpsþættinum Fótbolti.net í hádeginu.
Fyrsta spurningin sem Börkur fékk var einfaldlega: Af hverju eruð þið ekki komnir heim?
Fyrsta spurningin sem Börkur fékk var einfaldlega: Af hverju eruð þið ekki komnir heim?
„Við lentum í þessari kerfisvillu sem nánast allur heimurinn lenti í og flugið okkar var fellt niður. Þá voru góð ráð dýr enda lágu nánast allar bókunarsíður niðri og flugvélar fastar hér og þar. Við bókuðum því hótel hér í Tirana," segir Börkur.
Umfangsmikil kerfisbilun, sem sérfræðingar hafa lýst sem mesta tækniáfalli fyrr og síðar, höfðu mikil áhrif á kerfi og tölvur á flugvöllum.
„Hluti af hópnum fór heim í morgun gegnum Róm, annar hluti fer í gegnum Vín og þriðji hópurinn fer seint í kvöld til Kaupmannahafnar og svo heim í fyrramálið. Þetta hefur verið ævintýri."
Í viðtalinu er rætt við Börk um þennan glæsta sigur Vals og einnig um þá miklu öryggisgæslu sem Valsarar fengu í Albaníu eftir hótanirnar og lætin í fyrri leiknum.
„Líklega var ég öruggasti maðurinn í Albaníu þessa daga, ég var með lögreglustjórann mér við hlið nánast allan tímann. Við vorum með gæslumann og albanskan fararstjóra sem hugsaði mjög vel um okkur. Við mættum bara elskulegheitum hvert sem við mættum," segir Börkur.
Valur mætir Fram í Bestu deildinni á mánudagskvöld og leikur svo fyrri leik sinn gegn St. Mirren frá Skotlandi á fimmtudagskvöld á Hlíðarenda. Ráðgert er að miðasala á þann leik fari í gang í hádeginu á morgun.
Athugasemdir