Liverpool og Arsenal sýna Mbeumo áhuga - Hvenær tekur Amorim við Man Utd? - Arsenal vinnur að því að fá Sane
   mið 20. september 2023 13:10
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Martraðasumar á Selfossi - „Tímabilið að sjálfsögðu vonbrigði fyrir alla"
Selfyssingar fagna marki í sumar.
Selfyssingar fagna marki í sumar.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Verður Dean Martin áfram?
Verður Dean Martin áfram?
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Kvennalið Selfoss kolféll.
Kvennalið Selfoss kolféll.
Mynd: Hrefna Morthens
Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðsins.
Björn Sigurbjörnsson, þjálfari kvennaliðsins.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fótboltasumarið á Selfossi var alls ekki gott - í raun má lýsa því sem martröð - þar sem bæði karla- og kvennalið félagsins féllu niður um deild.

Strákarnir enduðu í næst neðsta sæti Lengjudeildarinnar og féllu þar með niður í 2. deild á meðan stelpurnar voru langneðstar í Bestu deild kvenna og unnu aðeins þrjá deildarleiki allt sumarið.

„Tímabilið er að sjálfsögðu vonbrigði fyrir alla á Selfossi," segir Jón Steindór Sveinsson, formaður knattspyrnudeildar Selfoss, þegar Fótbolti.net leitaðist eftir viðbrögðum frá honum.

Hundfúlt að falla
Það vakna margar spurningar eftir þetta tímabil á Selfossi þar sem vonbrigðin eru mikil.

„Karlaliðið var inni í flestum leikjum og vantaði lítið upp á til að vera í efri hlutanum. Margir þættir spiluðu inn í en liðið náði einhvern veginn ekki að klára leikina og fékk á sig of mörg mörk. Lið hefur líklega aldrei fallið úr næst efstu deild með þennan stigafjölda. Þannig að þetta er mjög svekkjandi en það þýðir ekkert að staldra við það heldur líta inn á við, finna lausnir og horfa fram á veginn."

Það hefur ekkert gerst síðan tólf liða deild var tekin upp í Lengjudeildinni að lið falli með svona mörg stig, 23 stig. Kvennaliðið náði hins vegar bara í ellefu stig eftir að hafa verið spáð um miðja deild áður en mótið hófst.

„Kvennaliðið náði sér ekki á strik í sumar. Liðið missti markahæstu leikmennina frá því í fyrra og við náðum ekki að fylla skarð þeirra. Talsverðar breytingar voru gerðar á hópnum stuttu fyrir mót sem varð kannski til þess að þetta náði ekki að smella saman hjá okkur. Einnig voru talsverð meiðsli lykilleikmanna. Það var margt sem spilaði inn í og erfitt að benda á eitthvað eitt sem varð þess valdandi að illa fór, en þar er sama sagan, við verðum að gera betur og líta inn á við. Kvennaliðið lék síðast í Lengjudeildinni árið 2017 og fór beint upp. Næstu ár voru mjög góð í kvennaknattspyrnu Selfossi og bikarmeistaratitill kom í hús árið 2019, fyrsti stóri titill félagsins."

„Það er hundfúlt að falla en við horfum björtum augum fram á veginn," segir Jón Steindór.

Sú vinna er í fullum gangi
Verða þjálfararnir áfram eftir þessi vonbrigði? „Skoða þarf alla þætti þegar þetta er niðurstaðan. Sú vinna er í fullum gangi hjá félaginu og verður hún unnin faglega," segir Jón Steindór.

Dean Martin tók við karlaliði Selfoss fyrir fimm árum síðan þegar liðið var í fallbaráttu í Lengjudeildinni. Hann fór með liðinu niður og kom því aftur upp. Núna er það farið aftur niður. Björn Sigurbjörnsson tók við kvennaliði Selfoss fyrir síðasta tímabil eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari Kristianstad í Svíþjóð. Liðið endaði í fimmta sæti Bestu deildarinnar í fyrra en fellur núna. Björn hefur verið orðaður við Víking en segist ekki vera að fara þangað.

Felist í þessu ákveðin tækifæri
Jón Steindór segir að þrátt fyrir afar vont sumar sé framtíðin björt á Selfossi og bendir á það að 2. flokkur karla sé að fara að spila í bikarúrslitum á morgun gegn Víkingi Reykjavík.

„Framtíðin er björt á Selfossi, margir ungir leikmenn fengu mikilvæga reynslu á þessu tímabili bæði hjá karlaliðinu og kvennaliðinu."

„Þar að auki eru margir efnilegir leikmenn að koma upp í gegnum yngri flokka starfið," segir formaðurinn. „Við viljum byggja liðin okkar að mestu á uppöldum leikmönnum eða heimamönnum og efniviðurinn er til staðar á Selfossi. Það er kannski klisja að segja að í þessu felist ákveðin tækifæri fyrir unga leikmenn sem fá fleiri tækifæri en við ætlum okkur að byggja ofan á þann grunn sem við höfum í dag og komast fljótt í röð þeirra bestu."
Athugasemdir
banner
banner