Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   fös 21. febrúar 2014 17:20
Ingvi Þór Sæmundsson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Nokkur orð um uppgang Atlético Madrid
Ingvi Þór Sæmundsson
Ingvi Þór Sæmundsson
Mynd: Getty Images
Diego Simeone.
Diego Simeone.
Mynd: Getty Images
Diego Costa.
Diego Costa.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Koke.
Koke.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
David Villa.
David Villa.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Það væri synd að segja að toppbaráttan í La Liga hafi verið óútreiknanleg síðustu ár. Eftir að Rafa Benítez yfirgaf Spán sumarið 2004 eftir að hafa stýrt Valencia til meistaratitils, hafa risarnir tveir, Real Madrid og Barcelona, verið í algjörum sérflokki í deildinni. Það hefur aðeins einu sinni gerst á síðustu níu tímabilum að annað lið en Real Madrid eða Barcelona hafi endað í öðru af tveimur efstu sætum La Liga; Villareal endaði í öðru sæti ´07-08, tíu stigum á undan Barcelona. Það voru s.s. engin ný tíðindi að Real og Barca væru á toppnum, en bilið milli þeirra og annarra liða var meira en áður og það sem verra var þá fór það sífellt stækkandi. Tímabilið ´08-09 var munurinn milli 2. og 3. sætis átta stig, árið eftir var hann orðinn 25 stig, svo 21 stig og ´11-12 náði hann hámarki þegar 30 stig skildu silfurlið Barcelona og Valencia að. Þetta tveggja turna tal var hætt að vera fyndið og fátt virtist geta stöðvað þessa þróun.
Enter Diego Simeone.

Einhvern veginn hefur maður alltaf tilhneigingu til að líta á Simeone sem vonda kallinn. Og kannski ekki að ástæðulausu. Hann gæti auðveldlega verið illmenni í Bond-mynd, svona svartklæddur frá toppi til táar og með hárið sleikt aftur. Og svo er það Beckham-atvikið á HM 1998, sem situr enn í mörgum. Það má reyndar deila um hver hafi verið sökudólgurinn þar, sá sem setti upp gildruna eða sá sem gekk í hana, en það er ekki spurning að það atvik setti svartan blett á annars farsælan feril Argentínumannsins.

Ókei, Simeone er kannski vondi kallinn. En hann gæti einnig verið bjargvættur La Liga.

Fyrir nokkrum mánuðum var það afar fjarlæg tilhugsun að annað lið en Barcelona eða Real Madrid myndi sitja á toppnum í La Liga. En það gerðist nú samt í byrjun febrúar þegar Atlético Madrid tyllti sér á topp deildarinnar eftir 4-0 heimasigur á Real Sociedad. Stundin var táknræn fyrir tvennar sakir. Daginn áður hafði Luis Aragones, fyrrverandi leikmaður og þjálfari Atlético, kvatt þennan heim og liðið gat því varla fundið betri leið til að votta honum virðingu sína. Og þetta var sömuleiðis í fyrsta sinn sem Atlécio komst á topp La Liga síðan 1996, tímabilið sem liðið varð tvöfaldur meistari á Spáni. Fyrirliði liðsins þá: Diego Simeone.

Sá argentínski var gríðarlega vinsæll leikmaður hjá Atlético og ráðning hans mæltist vel fyrir hjá stuðningsmönnum liðsins sem hafa gengið í gegnum ýmislegt frá tvennutímabilinu 1996; fall í 2. deild, fleiri þjálfaraskipti en tölu verður á komið og almennt rugl í stjórnun félagsins. Týndi sonurinn sneri aftur og það er viðeigandi að það sé hann sem leiði nú endurreisn félagsins.

Þótt það hafi ekki farið mikið fyrir því, þá er Simeone enginn nýgræðingur í þjálfun. Hann hlaut skjótan frama á þeim vettvangi, en aðeins 38 ára að aldri hafði hann unnið tvo meistaratitla í heimalandinu, með Estudiantes og River Plate. Simeone tókst hins vegar ekki fylgja titlinum hjá síðarnefnda liðinu eftir og þegar hann sagði starfi sínu lausu í nóvember 2008 var River Plate í fallsæti. Hann stoppaði svo stutt við hjá San Lorenzo, Catania á Sikiley og Racing Club áður en kallið frá Atlético Madrid kom í desember 2011.

Þegar Simeone skrifaði undir samning hjá sínu gamla félagi á Þorláksmessu 2011 var Atlético í 10. sæti La Liga, 21 stigi á eftir toppliði Real Madrid, aðeins fjórum stigum frá fallsæti og úr leik í Copa del Rey eftir að hafa tapað fyrir 3. deildar liði Albacete.

Nú rúmum tveimur árum seinna er Atlético Madrid Evrópudeildartitli, Ofurbikar Evrópu og spænskum bikar ríkari. Sigurinn í Copa del Rey síðasta vor setti punktinn aftan við afar gott tímabil 2012-13, þar sem Atlético endaði í þriðja sæti í La Liga með 76 stig, sem var mesti stigafjöldi sem liðið hafði náð í frá tvennutímabilinu. Sigurinn í Copa del Rey markaði jafnframt tímamót. Þegar Brasilíumaðurinn Miranda skallaði fyrirgjöf Kokes í netið í framlengingu úrslitaleiksins tryggði hann Atlético ekki einungis sinn fyrsta stóra titil á Spáni í 17 ár, heldur einnig fyrsta sigurinn á Real Madrid á þessari öld.

Simeone og hans menn hafa svo haldið uppteknum hætti á þessari leiktíð. Þegar þessi orð eru skrifuð situr Atlético í 3. sæti La Liga með jafn mörg stig og Real Madrid og Barcelona og er jafnframt í góðri stöðu í Meistaradeild Evrópu eftir sigur á AC Milan í fyrri leiknum í 16-liða úrslitum keppninnar. Eitthvað virðist Simeone því vera að gera rétt. En hvað?

Fyrir það fyrsta þá er Atlético liðið eins konar ímynd þjálfarans eins og Carlo Ancelotti, þjálfari Real Madrid, benti á fyrr á tímabilinu: „Atlético Madrid spilar eins og Diego Simeone gerði: harðir, einbeittir, og taktískt fullkomnir“.

Ancelotti lýgur engu um það. Atlético liðið er gríðarlega vinnusamt, kraftmikið og frábærlega skipulagt. Fyrir áhugamenn um þann þátt leiksins, þá er lið Atlético algjör draumur á að horfa. Hver einasti leikmaður er með sitt hlutverk á hreinu og liðið hreyfir sig sem ein heild í fullkomnum takti, fram og til baka, frá hægri og til vinstri.

Lykilatriðið hjá Atlético er hversu litlu svæði liðið verst á. Þegar boltinn tapast falla framherjarnir aftur á völlinn, kantmennirnir og bakverðirnir koma inn og liðið stíflar miðju vallarins, ef svo má segja. Það er lítið sem ekkert pláss milli varnar og miðju og liðið setur andstæðinginn jafnan undir góða pressu. Atlético býr m.ö.o. yfir þeim eiginleika að geta stjórnað leikjum án þess að vera með boltann, öfugt við flest spænsk lið sem leggja höfuðáherslu á að halda boltanum innan liðsins.

Þetta eru engin ný vísindi. Marcelo Bielsa, sem þjálfaði Simeone hjá argentínska landsliðinu, og Arrigo Sacchi eru meðal þeirra sem hafa predikað svipaða hluti, þ.e. að reyna að verjast á sem minnstu svæði. Sacchi sagði t.a.m. einhverju sinni við lærisveina sína hjá Milan að ef það væru 25 metrar frá aftasta til fremsta manns hjá þeim gæti ekkert lið unnið þá. Það er vissulega breyttir tímar í dag – breytingar á rangstöðureglunni gera það að verkum að lið geta ekki beitt rangstöðugildru eins og Milan gerði þá – en það eru viss líkindi milli Atlético Madrid nú og Milan í kringum 1990.

Það er væri þó ósanngjarnt að stimpla Atlético sem varnarsinnað og neikvætt lið – það er bara betur skipulagt og spilar betri vörn en flest önnur lið. Ekkert lið hefur fengið færri mörk á sig (16) í La Liga en Atlético, sem hefur m.a. haldið hreinu í báðum leikjunum sem það hefur spilað við Barcelona og Real Madrid í deildinni.

Síðarnefnda liðið vann Atlético reyndar afar sannfærandi, samanlagt 5-0, í undanúrslitum Copa del Rey fyrir skömmu, en í leik liðanna í deildinni í lok september spiluðu menn Simeones sennilega sinn besta leik á tímabilinu, þar sem framherjinn Diego Costa fór fremstur í flokki. Frammistaða hans í þeim leik er ein sú besta sem leikmaður í Evrópuboltanum hefur sýnt í vetur. Costa skoraði ekki einungis sigurmarkið, heldur var hann tveggja manna maki, bæði í vörn og sókn; hljóp úr sér lifur og lungu, vann skallabolta og tæklingar, fiskaði aukaspyrnur og var óþolandi eins og honum er einum lagið.

Costa hefur átt magnað tímabil og hefur tekist að fylla skarð kólombíska markaskorarans Radamel Falcao sem var seldur til Monaco í sumar. Það voru ekki allir svo bjartsýnir, en Costa hefur þroskast mikið sem leikmaður og það verður gaman að sjá hvað hann gerir með Spánverjum á HM í sumar.

Þá skal framlag Davids Villa ekki vanmetið. Þótt hann sé ekki sami leikmaður og fyrir nokkrum árum er hann enn hörku framherji og Atlético fékk hann á spottprís. Villa hefur skorað 11 mörk í 23 leikjum í La Liga og auk þess skilað góðri varnarvinnu. Hann hefur reyndar þurft að verma bekkinn í síðustu leikjum þar sem Simeone hefur kosið að spila með auka miðjumann á kostnað framherja, en reynsla hans og hæfileikar gætu reynst Atlético vel á lokasprettinum.

Costa og Villa eru þó ekki einir um að hafa spilað vel í vetur fyrir Atlético. Arda Turan er frábær leikmaður, Koke hefur spilað sig inn í spænska landsliðið (sem er afrek í ljósi þess hversu marga góða leikmenn Spánn á í hans stöðu), Miranda og Diego Godín mynda mjög sterkt miðvarðapar og fyrir aftan þá stendur besti ungi markvörður í heimi, Thibaut Courtois.

Þrátt fyrir frábært gengi í vetur hefur Simeone hamrað á því að lið hans geti ekki unnið Spánarmeistaratitilinn á þessu tímabili, líklega til að stilla væntingum stuðningsmanna liðsins í hóf. En Atlético væri ekki þar sem það er í La Liga ef trúin á verkefnið væri ekki til staðar og liðið er komið of langt til að hætta núna. Og eins og Ben Lyttleton bendir á í nýlegri grein um Simeone, þá er þetta tímabil líklega besti möguleiki Atlético til að vinna fleiri titla. Costa er líklega á förum eftir tímabilið og fleiri leikmenn Atlético eru eflaust undir smásjá stærri liða, auk þess sem það er óvíst hvað verður um Courtois sem hefur undanfarin ár verið í láni frá Chelsea. Það gæti því verið nú eða aldrei fyrir Atlético.

En glugginn er enn opinn upp á gátt og framundan bíða stór verkefni; Meistaradeildin og leikir við keppinautana í Real Madrid og Barcelona, sem eru sérlega mikilvægir sökum þess að á Spáni gilda innbyrðis viðureignir en ekki markatala þegar kemur að því skera úr á milli liða sem eru jöfn að stigum. Miðað við fjárhagslegt bolmagn ætti Atlético ekki að eiga möguleika að keppa við Real Madrid og Barcelona, en Simeone og hans mönnum hefur tekist að breyta toppbaráttunni í La Liga í þriggja hesta kapphlaup. Tekst Atlético hið ómögulega, að koma fyrst í mark? Það mun tíminn leiða í ljós, en Diego Simeone hefur a.m.k. fengið stuðningsmenn Atlético Madrid til að trúa á hið ómögulega.
Athugasemdir
banner
banner
banner