Napoli í viðræðum um Garnacho - Villa hafnaði tilboði West Ham í Duran - Vlahovic orðaður við Chelsea
   fös 21. febrúar 2020 16:36
Elvar Geir Magnússon
ÍA hafnaði mettilboði frá FH - Hörður Ingi vill fara
Á inni bónusgreiðslur frá Skagamönnum
Hörður Ingi Gunnarsson.
Hörður Ingi Gunnarsson.
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
FH er að reyna að fá bakvörðinn Hörð Inga Gunnarsson frá ÍA en umboðsmaður Harðar segir að Skagamenn hafi hafnað tilboði í leikmanninn sem hefði verið metupphæð milli íslenskra félaga.

Hörður Ingi er U21-landsliðsmaður sem hefur leikið með ÍA síðustu tvö ár. Hann er uppalinn FH-ingur en er samningsbundinn Skagamönnum út tímabilið 2021. Hann lék 21 leik í Pepsi Max-deildinni í fyrra.

„FH hefur verið að reyna að kaupa Hörð Inga síðustu þrjár vikur. Tilboðið sem var á borði ÍA hefði verið metupphæð milli liða í Pepsi Max-deildinni og var með hárri prósentupphæð varðandi næstu sölu," segir Cesare Marchetti, umboðsmaður Harðar.

Þá segir hann að Hörður eigi inni ógreiddar greiðslur hjá ÍA.

„Hörður á inni verulegar greiðslur frá ÍA í ógreiddum bónusgreiðslum. Hann var tilbúinn að gefa þær eftir til að samkomulag myndi nást."

„Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir frá mér, leikmanninum og föður leikmannsins til að ná samkomulagi við ÍA hefur félagið hafnað öllum tilboðum og vill ekki ræða þetta frekar."

„Hörður hefur verið að spila út úr stöðu sem vinstri bakvörður fyrir ÍA og gert vel. Til að þróast frekar sem leikmaður og eiga meiri möguleika á því að komast í atvinnumennsku er FH betra félag fyrir hann. Þar myndi hann spila í sinni stöðu sem hægri bakvörður og einnig taka þátt í Evrópukeppni."

„Leikmaðurinn vill taka næsta skref á ferlinum og snúa aftur í uppeldisfélag sitt. Í dag hafnaði ÍA nýju tilboði frá FH og sagði að leikmaðurinn væri ekki til sölu. Við vonum að ÍA geti lagt egóið og stoltið til hliðar og náð samkomulagi við FH með hagsmuni stráksins að leiðarljósi."

„Við erum alveg vissir í því að Hörður vill fara til að þróa sinn feril og vonumst til þess að samkomulag náist," segir Marchetti.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner