Líklegra að Nunez verði seldur frá Liverpool - Wharton einn af þeim sem eru orðaðir við Man Utd - City á leið í endurbyggingu - Newcastle til í...
   fös 21. febrúar 2025 13:30
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Meiðsli Ísaks alvarlegri en talið var í fyrstu - Vonast eftir honum í júlí
Ísak Óli þurfti að fara í aðgerð á dögunum.
Ísak Óli þurfti að fara í aðgerð á dögunum.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Farið sparlega með fyrirliðann.
Farið sparlega með fyrirliðann.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í vikunni hefur verið spurst út að alvarleiki meiðsla Ísaks Óla Ólafssonar, varnarmanns FH, sé meiri en fyrst var greint frá.

Fótbolti.net sagði frá því í byrjun þessa mánaðar, eftir samtal við Ísak, að hann yrði frá allavega næstu þrjá mánuði.

Eitthvað hefur heyrst um að hann gæti jafnvel misst af öllu tímabilinu.

Fótbolti.net ræddi við Heimi Guðjónsson, þjálfara FH, og spurði hann út í stöðuna á miðverðinum.

„Það er rétt að meiðslin eru alvarlegri en var talið í fyrstu. Við reiknum ekki með honum fyrr en seinni partinn í mótinu. Þegar hann fer í aðgerðina þá var þetta verra heldur en menn áttu von á."

„Við vorum að gera okkur vonir um að þetta yrðu bara 2-3 mánuðir en svo hefur komið í ljós að þetta getur verið allt upp í 4-6 mánuði. Við reiknum ekkert með honum fyrr en vonandi í júlí,"
segir Heimir.

Fyrir utan Ísak, er staðan á hópnum ásættanleg?

„Það er búið að vera töluvert af meiðslum hjá okkur, bara eins og gengur og gerist á undirbúningstímabilinu. Menn eru að koma til baka, (Kristján) Flóki er að koma til baka, Grétar (Snær) er að koma til baka og svo höfum verið að fara sparlega með Björn Daníel. Það ættu flestir að vera klárir þegar við förum í æfingaferð til Marbella 1. mars, 7-9-13," segir Heimir.
Athugasemdir
banner