Enski landsliðsfyrirliðinn Harry Kane hefur verið að raða inn mörkunum með FC Bayern og enska landsliðinu á tímabilinu og virðist hann vera ósáttur með minni fjölmiðlaumfjöllun en hann hafði búist við.
Kane er markahæsti leikmaður í sögu enska landsliðsins með 69 mörk og ætlar ekki að hægja á sér. Hann er búinn að skora 76 mörk í 82 leikjum frá komu sinni til Bayern en hefur þrátt fyrir það verið gagnrýndur fyrir leik sinn.
„Ef ég væri 25 ára gamall að gera sömu hluti og ég er að gera núna þá væri ótrúlega mikil spenna í kringum mig. Það væri gríðarleg umfjöllun og ekki eins mikil gagnrýni og er núna," sagði Kane.
„Þetta er eins og þegar Ronaldo og Messi voru að skora ótrúlegt magn marka á hverju tímabili. Það gerðist einhvern tímann að þeir skoruðu 'bara' 40 mörk á einu tímabili eftir að þeir höfðu sett 50 mörk tímabilið áður og þá talaði fólk um að þeir væru að eiga lélegt tímabil. Fólk tekur þessari markaskorun sem sjálfsögðum hlut og ég hef tekið eftir því hjá enska landsliðinu líka.
„Ég hef skorað 69 mörk og þegar ég skora gegn þjóðum eins og Albaníu eða Lettlandi þá er lítið talað um það útaf því að fólk býst bara við því. Það er eins og fólk fái smá leið á því að sjá mann skora, en mér finnst það allavega ekki leiðinlegt. Ég er alltaf spenntur fyrir nýju tækifæri til að skora."
Kane hefur komið að 43 mörkum í 37 leikjum með Bayern á tímabilinu og fengið sinn skerf af gagnrýni þrátt fyrir gott gengi.
„Það getur verið erfitt, stundum er hvetjandi að fá gagnrýni en stundum reynir maður að forðast hana eins og heitan eldinn. Þegar ég var yngri þá hlustaði ég meira á það sem var sagt um mig en þegar allt kemur til alls þá er ég minn stærsti gagnrýnandi. Ég hef alltaf notað gagnrýni sem eldsneyti til að sanna mig.
„Það þarf voðalega lítið til þess að fjölmiðlar byrji að tala um að fótboltamaður sé í lægð þegar hann skorar ekki nokkra leiki í röð eða að hann komi til greina sem næsti sigurvegari Ballon d'Or þegar hann skorar nokkrum sinnum í röð. Það er alltof stutt á milli."
Athugasemdir