Stefán Ingi Sigurðsson átti frábæra innkomu þegar norsku liðin Sandefjord og Stabæk áttust við í æfingaleik í dag.
Stefán Ingi spilaði síðasta hálftímann fyrir Sandefjord en liðið var 2-0 undir þegar hann kom inn á. Stefán gerði sér lítið fyrir og skoraði þrennu og lagði upp eitt þegar liðið vann 4-2.
Lærisveinar Milosar Milojevic í Al-Wasl unnu Al-Ain 1-0 í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í kvöld. Al-Wasl hefur unnið þrjá deildarleiki í röð og er í 4. sæti með 27 stig eftir 17 umferðir, liðið er tveimur stigum á eftir Al-Ain sem er í sætinu fyrir ofan.
Kolbeinn Þórðarson kom inn á sem varamaður á 64. mínútu í 3-0 sigri Gautaborgar gegn Sandviken í sænska bikarnum. Liðið er á toppi síns riðils með sex stig eftir tvær umferðir.
Hjörtur Hermannsson lék allan leikinn þegar Volos tapaði 2-1 gegn Levadiakos í grísku deildinni. Liðið er með 21 stig í 12. sæti eftir 24 umferðir.
Athugasemdir